Hoppa yfir valmynd
13. október 2003 Utanríkisráðuneytið

Aðildarsamningur Evrópska efnahagssvæðisins vegna stækkunar þess undirritaður á morgun

Nr. 111

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Á morgun, 14. október 2003, mun Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra undirrita fyrir Íslands hönd, aðildarsamning Evrópska efnahagssvæðisins vegna stækkunar þess. Auk hans munu ráðherrar og fulltrúar EFTA-ríkjanna innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), fulltrúar aðildarríkja Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnar ESB ásamt fulltrúum hinna tíu nýju aðildarríkja ESB, undirrita samninginn.

EES-samningurinn kveður á um aðild Íslands, Liechtenstein og Noregs að innri markaði Evrópusambandsins. Með stækkunarsamningi EES bætast 10 aðildarríki við EES-samninginn sem eru hin nýju aðildarríki Evrópusambandsins en þau eru: Tékkland, Eistland, Kýpur, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvenía og Slóvakía.

Samningaviðræður um stækkun EES-samningsins hófust hinn 9. janúar 2003 og þeim lauk hinn 03. júlí sl. í Brussel. Niðurstaða samningaviðræðnanna gerir ráð fyrir því að stofnaður verði nýr þróunarsjóður EFTA EFTA-ríkin innan EES, Ísland, Noregur og Lichtenstein, samþykktu að sömu ákvæði um undanþágur og aðlögunartíma skyldu gilda og sem er að finna í hinum nýja aðildarsamningi Evrópusambandsins. Með stækkunarsamningi EES er gert ráð fyrir sérstöku fjármagnskerfi EES, þróunarsjóði EFTA, en þar er mælt fyrir um fjárhagslegan stuðning EFTA-ríkjanna innan EES til fjárfestingar- og þróunarverkefna í einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þá gerir samkomulagið ennfremur ráð fyrir því að Evrópusambandið felli niður tolla á frosnum síldarsamflökum frá Ísland. Með aðildarsamningnum eru þær aðlaganir og undanþágur sem gerðar eru á löggjöf Evrópusambandsins við stækkun þess, felldar inn í EES-samninginn og nauðsynlegar tæknilegar aðlaganir gerðar á meginmáli hans.

Í kjölfar stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins munu tengsl og samvinna milli ríkjanna styrkjast verulega en þegnar aðildarríkjanna munu þá eiga aðgang að um 455 milljóna manna markaði.

Að undirritun lokinni þurfa þau 28 ríki sem hafa undirritað stækkunarsamninginn að fullgilda hann á næstu mánuðum, ásamt þeim tvíhliða yfirlýsingum og samningum sem honum fylgja. Gert er ráð fyrir að samningurinn öðlist gildi hinn 1. maí 2004, eða um leið og stækkunarsamningur Evrópusambandsins.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 13. október 2003


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum