Hoppa yfir valmynd
3. október 2003 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur Barentsráðsins í Umeå Svíþjóð 2.-3. október 2003

Nr. 105

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Ráðherrafundur Barentsráðsins var haldinn í Umeå, Svíþjóð, 2.-3. október 2003. Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri, sat fundinn fyrir hönd Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.

Barentsráðið er samstarfsvettvangur Norðurlandanna, Rússlands og Evrópusambandsins og var stofnað 1993. Meginmarkmið ráðsins er að efla samvinnu og samstarf að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra svæða sem liggja að Barentshafinu, þ.e. norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands og norðvesturhluta Rússlands.

Á ráðherrafundinum var rætt um styrkingu efnahagslegrar samvinnu á Barentssvæðinu. Af hálfu Íslands var sérstaklega minnt á framtíðarmikilvægi norðaustursiglingaleiðarinnar. Æskulýðsmál, menningarmál, ferðamál, heilbrigðismál og umhverfismál á Barentssvæðinu voru einnig til umræðu. Baráttan gegn mansali var sérstaklega rædd og sérstakur vinnuhópur hefur nú verið settur á laggirnar til að berjast gegn mansali á Barentssvæðinu. Af hálfu Íslands var ennfremur gerð grein fyrir áhersluatriðum Íslands sem formennskuríkis Norðurskautsráðsins.

Á ráðherrafundinum tók Noregur við formennsku í Barentsráðinu af Svíþjóð, sem gegnt hefur formennskunni undanfarin tvö ár.
Fréttatilkynningu ráðherrafundarins er að finna á vefsíðu Barentsráðsins, www.beac.st.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 3. október 2003


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum