Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2006 Utanríkisráðuneytið

Framlagaráðstefna fyrir Líbanon haldin í Stokkhólmi 31. ágúst 2006

Sendiherra Íslands í Svíþjóð, Guðmundur Árni Stefánsson, sat alþjóðlega framlagaráðstefnu til aðstoðar Líbanons sem fram fór í Stokkhólmi í dag.

Sænsk stjórnvöld skipulögðu ráðstefnuna í samstarfi við stjórnvöld í Líbanon og með stuðningi Sameinuðu þjóðanna. Ráðstefnan var haldin í framhaldi af ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 1701 og þar sem lögð er áhersla á mannúðar- og neyðaraðstoð og fjármögnun á fyrstu skrefum til uppbyggingar í landinu.

Í ræðu sinni í dag sagði Guðmundur Árni m.a. að íslensk stjórnvöld styddu heilshugar ályktun S.þ. um Líbanon, en lýsti jafnframt áhyggjum stjórnvalda vegna hugsanlegs áframhalds á átökum stríðandi aðila á svæðinu. Guðmundur Árni hrósaði þeim ríkjum sem lagt hafa fram friðargæsluliða og sagði að íslensk stjórnvöld væru reiðubúin til að leggja sitt af mörkum til aðstoðar og uppbyggingar Líbanons.

M.a. hefði utanríkisráðherra nýlega ákveðið að veita samtals 338.000 Bandaríkjadölum til aðstoðar vegna mannúðar- og neyðaraðstoðar í Líbanon. Framlagið skiptist þannig: Alþjóðasamtök Kirkna (ACT) 29.000 dalir, Rauði krossinn 129.000 dalir, Matvælaáætlun S.þ. (WFP) 100.000 dalir og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) 80.000 dalir.

Ákvörðun um hugsanleg viðbótarframlög verður tekin þegar nánari upplýsingar um þörf á aðstoð liggja fyrir.

Að lokum sagði sendiherra að þótt fjárframlög væru mikilvæg, þá væri samtakamáttur alþjóðasamfélagsins ekki síður þýðingarmikill til að stuðla að varanlegum friði í Mið-Austurlöndum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum