Hoppa yfir valmynd
15. september 2003 Utanríkisráðuneytið

Lokið er fimmtu ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Kankún

Nr. 084

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Fimmtu ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, í Kankún í Mexíkó er lokið. Meginviðfangsefni ráðherrastefnunnar var að samþykkja ramma fyrir samningamenn aðildarríkjanna til að auðvelda þeim að ljúka viðræðunum 1. janúar 2005 eins og ákveðið var á fjórðu ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Doha fyrir tveimur árum.

Þrátt fyrir að vel hafi miðað í ýmsum málum, svo sem á sviði landbúnaðar og markaðsaðgangs fyrir aðrar vörur, tókst ekki að ná samkomulagi um viðmiðanir sem vinna bæri eftir. Viðræðurnar strönduðu fyrst og fremst á svokölluðum Singapúr málefnum sem fjalla um viðskiptaliprun, samkeppnismál, opinber innkaup og fjárfestingar. Mörg þróunarríki voru algjörlega mótfallin því að samningaviðræður hæfust um þessi málefni, en hins vegar litu sum vestræn ríki svo á að árangur á þessum sviðum væri grundvallaratriði ef ljúka ætti viðræðum um aðra þætti lotunnar. Samningaviðræður um landbúnaðarmál voru erfiðar, eins og búist hafði verið við, en þó var talið að viðræðunar á því sviði hefðu þokast áfram þegar fundinum var slitið.

Í yfirlýsingu ráðherrastefnunnar er tekið fram að árangur hafi náðst á ýmsum sviðum en ennþá sé langt í land að samkomulag náist um framhald samningaviðræðnanna. Ákveðið var að boða til sérstaks fundar í aðalráði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar 15. desember n.k. til reyna að finna lausnir á fyrirliggjandi ágreiningsefnum.

Yfirlýsing ráðherrastefnunnar í Kankún fylgir hjálagt.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. september 2003





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum