Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2006 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs

Þann 26. janúar síðastliðinn afhenti Hannes Heimisson, sendiherra, Arnold Rüütel, forseta Eistlands, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Eistlandi með aðsetur í Helsinki. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Tallinn.

Að afhendingu lokinni átti sendiherra fund með forseta Eistlands. Í viðræðunum lagði sendiherra áherslu á náinn vinskap þjóðanna og vaxandi samskipti, bæði á vettvangi viðskipta og stjórnmála. Forseti tók undir þetta og kvaðst jafnframt vilja nota tækifærið og þakka Íslendingum fyrir mikilvægt frumkvæði og ómetanlegan stuðning við eistnesku þjóðina þegar hún var að brjótast undan oki Sovétríkjanna fyrir fimmtán árum. Þessu hlutverki Íslands myndi eistneska þjóðin aldrei gleyma. Forsetinn kvaðst einnig hafa tekið eftir velgengni Íslendinga á undanförnum árum, í efnahagsmálum og á sviði menningar og vísinda. Hann sagðist meðal annars hafa tekið eftir auglýsingum um Íslandsferðir í eistneskum fjölmiðlum að undanförnu og lét í von þá ósk sína að ferðaþjónusta á milli ríkjanna ætti eftir að aukast.

Sendiherra átti einnig fund með Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, og embættismönnum í utanríkisráðuneytinu.
Á þeim fundi, þar sem rætt var um ýmis sameiginleg hagsmunamál ríkjanna, áréttaði utanríkisráðherra Eistlands þakkir til íslenskra stjórnvalda vegna fjárframlags til þjálfunar lögreglumanna frá Georgíu í Eistlandi. Utanríkisráðherrann sagði að hér væri um afar mikilvæga starfsemi að ræða er skipti miklu fyrir stöðugleika í ríkjum er áður tilheyrðu Sovétríkjunum. Hann sagði að þessi ríki, Georgía, Moldavía og Úkraína stæðu að ýmsu leyti í svipuðum sporum og Eistland fyrir tíu til fimmtán árum. Eistland hefði hinsvegar takmarkaða burði til að fjármagna þjálfun og endurmenntun af þessu tagi og því væri framlag Íslands afar mikilvægt.  
   



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum