Hoppa yfir valmynd
22. júní 2005 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðleg ráðstefna um Írak í Brussel

Í dag var haldin alþjóðleg ráðstefna í Brussel þar sem fjallað var um ástand og horfur í Írak. Bandaríkin og Evrópusambandið buðu til ráðstefnunnar að beiðni stjórnvalda í Írak og var tilgangurinn að gefa Írökum tækifæri til að gera alþjóðasamfélaginu grein fyrir því hvers konar aðstoðar er þörf þar í landi. Fundurinn var sóttur af fulltrúum tæplega níutíu ríkja og alþjóðastofnana en mikil áhersla var lögð á nauðsyn þess að styrkja hlutverk Sameinuðu þjóðanna við að samræma aðstoð við uppbyggingu landsins.

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra sótti fundinn af Íslands hálfu í fjarveru Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra. Í ræðu sinni lýsti hann stuðningi íslenskra stjórnvalda við lýðræðisþróunina í Írak og lagði áherslu á mikilvægi þess að ný stjórnarskrá landsins tryggði rétt allra íraskra borgara án tillits til trúarbragða, kynþáttar eða kynferðis. Hann áréttaði einnig þann ávinning sem lýðræði og stöðugleiki í Írak mundi hafa á önnur ríki í þessum heimshluta.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum