Hoppa yfir valmynd
5. maí 2003 Utanríkisráðuneytið

Frammistöðumat ESB

Nr. 047

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Í dag var kynnt frammistöðumat (Internal Market Scoreboard) ESB, sem sýnir árangur ESB-ríkjanna við innleiðingu tilskipana í landsrétt sinn. Samhliða er gerð úttekt af Eftirlitsstofnun EFTA á innleiðingu Íslands, Noregs og Liechtenstein, sem birt er til samanburðar í frammistöðumatinu.

Samkvæmt úttektinni er Ísland með 1,8% gerða útistandandi og er því í 8. sæti af 18 ríkjum EES-svæðisins, ásamt Belgíu. Evrópusambandið hefur sett sér það viðmið að aðildarríki verði með 1,5% eða færri gerðir útistandandi hverju sinni, en enn er meira en helmingur aðildarríkjanna með meira en 3% gerða útistandandi.

EES/EFTA-ríkin hafa hins vegar náð mjög góðum árangri og lagt mikla áherslu á að halda innleiðingu í góðu horfi. Fjöldi óinnleiddra gerða hefur aukist lítillega hjá Íslandi, en þær voru um 1,4% við síðasta frammistöðumat. Helgast það að nokkru leyti af stuttu vorþingi, auk þess sem vinna vegna stækkunar EES-svæðisins jók nokkuð álag á stjórnkerfið á viðmiðunartímanum.

Í frammistöðumatinu er að þessu sinni einnig birt staða gerða sem verða orðnar tveggja ára eða eldri og óinnleiddar á næsta leiðtogafundi ESB vorið 2003, skv. ákvörðun leiðtogafundarins í Barcelóna og er ein slík gerð útistandandi af Íslands hálfu.

Eftirlitsstofnun EFTA vísar einnig til þess að til skoðunar sé að kvartanir og athugasemdir verði settar inn í nýtt gagnagrunnskerfi ESB, SOLVIT sem EES/EFTA-ríkin eru aðilar að.

Frammistöðumatið má finna á heimasíðu Eftirlitsstofnunar EFTA, www.eftasurv.int og á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB http://europa.eu.int/comm/internal_market/en/update/score/index.htm



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 5. maí 2003


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum