Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2003 Utanríkisráðuneytið

Fimmtugasta og níunda þing Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna

Nr. 043

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Fimmtugasta og níunda þingi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, sem staðið hefur yfir undanfarnar sex vikur, lýkur í Genf í dag. Í Mannréttindaráðinu eiga sæti 53 ríki sem kosin eru af Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) til þriggja ára í senn. Að þessu sinni á Svíþjóð sæti í ráðinu af hálfu Norðurlanda.

Efling mannréttinda er órjúfanlegur hluti af starfi Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar og öryggis. Á þingum Mannréttindaráðsins er fjallað um stöðu og þróun mannréttinda, ástand mannréttinda í einstökum löndum og réttindi ákveðinna þjóðfélagshópa. Á þinginu nú, eins og hin síðari ár, byggðist málflutningur allflestra ríkisstjórna, alþjóðasamtaka svo og félagasamtaka á þingfundum ráðsins á því að mannréttindi séu algild og á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls.

Á þinginu flutti fulltrúi Íslands ávarp um réttindi barnsins með áherslu á börn á stofnunum og börn án umsjár. Norðurlönd og Eystrasaltsríkin stóðu sameiginlega að ræðum um mannréttindasamninga og verslun með konur og stúlkur. Einnig voru fluttar norrænar ræður um málefni fólks á vergangi og málefni frumbyggja.

Ísland var meðflytjandi að 46 ályktunartillögum um afnám dauðarefsingar, aftökur, baráttu gegn pyntingum, afnám alls ofbeldis gegn konum, réttindi minnihlutahópa, afnám hvers kyns fordóma gagnvart trúarbrögðum, tjáningafrelsi, réttindi barnsins, mannréttindi fatlaðra, verjendur mannréttinda, alþjóðlega mannréttindasamninga, mannréttindi og hryðjuverk, mannréttindi og innri starfshætti, málefni frumbyggja, fátækt, alnæmi, menntun o.fl. Jafnframt var Ísland meðflutningsaðili að sérstökum ályktunartillögum um stöðu mannréttinda í Hvíta- Rússlandi, Írak, Kambódíu, Kongó-lýðveldinu, Kúbu, Myanmar, Norður-Kóreu, Simbabve, Sierra Leone, Súdan, Tsjetsjeníu og Túrkmenistan. Ályktunartillögur um stöðu mannréttinda í Súdan og Tsjetsjeníu voru felldar. Ekki voru greidd atkvæði um ályktunartillögu Evrópusambandsins um stöðu mannréttinda í Simbabve, þar sem flutt var frávísunartillaga sem var samþykkt. Ísland var ennfremur meðflutningsaðili að tillögu Evrópusambandsins um ólöglegt landnám Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum og að tillögu Arabaríkjanna um rétt Palestínumanna til sjálfsákvörðunar og stofnunar sjálfstæðs ríkis. Þingið samþykkti samhljóða ályktanir formanns ráðsins um stöðu mannréttinda í Afganistan, Haíti, Tímor-Leste, Kólumbíu og Vestur-Sahara.

Meðfylgjandi er listi yfir þær ályktunartillögur sem Ísland gerðist meðflutningsaðili að. Nánari upplýsingar um mannréttindaþingið má finna á veffanginu http://www.unhchr.ch

Sextugasta þing Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna verður haldið í Genf 15. mars til 23. apríl 2004.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 25. apríl 2003




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum