Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2005 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs í Þýskalandi

Ólafur Davíðsson afhenti í dag forseta Þýskalands, Horst Köhler, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Þýskalandi. Eftir athöfnina átti sendiherra fund með forsetanum. Tvíhliða samskipti landanna er með ágætum og beindust umræðuefni því fyrst og fremst að þeim málum sem hæst ber á alþjóðavettvangi. Í umræðum um náttúruhamfarirnar í Asíu kom fram að fjárhagsstuðningur Þýskalands og Íslands, ef miðað er við höfðatölu, er svipaður. Bar sendiherra forsetanum innilegar samúðarkveðjur Íslendinga vegna þeirra Þjóðverja sem fórust. Var í þessu samhengi einnig rætt um samspil þróunaraðstoðar og aðstoðar vegna uppbygginar eftir flóðin.

Þýskaland hefur um árabil verið stærsta viðskiptaland Íslands og voru heildarviðskipti landanna á sl. ári tæplega 60 milljarðar króna. Engu að síður er útflutningur okkar á Þýskalandsmarkað nokkuð einhæfur og samanstendur að mestum hluta af áli, fiskafurðum og lyfjaiðnaðarvörum. Þótt efnahagslægð sé í Þýsklandi eru án efa mörg áhugaverð tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki á auknum viðskiptum við þennan ríka markað. Þýski markaðurinn er einnig mjög mikilvægur fyrir ferðaþjónustu á Íslandi en landið sækja heim tæplega 40.000 þýskir ferðamenn á hverju ári. Áhugi á Íslandi sem ferðamannalandi fer mjög vaxandi. Nýr sendiherra Íslands í Þýskalandi hyggst leggja áherslu á að sinna efnahags- og viðskiptalegum hagsmunum Íslands í Þýskalandi, m.a. að styðja við útrás íslenskra fyrirtækja. Hann mun einnig leggja áherslu á áframhaldandi kröftuga kynningu á íslenskri menningu í Þýskalandi.

Sendiráð Íslands í Þýskalandi var stofnað árið 1952 og fluttist árið 1999 frá Bonn til Berlínar. Það hefur nú einnig fyrirsvar gagnvart Póllandi, Króatíu og Sviss. Starfsmenn eru alls 8 talsins. Ólafur Davíðsson er 13. sendiherra Íslands í Þýskalandi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum