Hoppa yfir valmynd
14. desember 2004 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs

Ólafur Egilsson afhenti í dag konungi Kambódíu, Norodom Sihamoni, trúnaðarbréf sem sendiherra Íslands í Kambódíu. Sendiherrastörfum gagnvart Kambódíu er sinnt frá Reykjavík eins og samskiptum við fleiri ríki Suðaustur-Asíu þ.e. Indónesíu, Malasíu, Singapúr og Tæland.

Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskur sendiherra afhendir trúnaðarbréf í Kambódíu. Formlegt stjórnmálasamband Íslands og Kambódíu var stofnað á sl. ári. Einnig veitti hinn nýi konungur nú í fyrsta skipti viðtöku trúnaðarbréfi erlends sendiherra en hann tók sem kunnugt er við konungdómi fyrir skemmstu af föður sínum Norodom Sihanouk sem óskaði að láta af völdum, sakir elli og veillar heilsu. Norodom Sihanouk kom til Íslands á 9. áratugnum áður en konungdæmi var endurreist í Kambódíu og átti fundi með íslenskum ráðamönnum um þróunina í landi sínu.

Íbúar Kambódíu sættu um árabil miklu harðræði vegna ógnarstjórnar Rauðra Khmera og ófriðar í landinu. Undanfarin ár hefur ríkt þar friður en stjórnmáladeilur hafa staðið í vegi fyrir markvissri uppbyggingu. Þótt nokkuð hafi áunnist hefur þróunin verið sveiflukennd og ótrygg. Efnahagur þjóðarinnar er sá bágasti í austanverðri Asíu. Lág laun hafa stuðlað að aukningu í fataframleiðslu o.fl. til útflutnings og hefur framleiðni í greininni vaxið þótt hún standi enn að baki þeirri sem náðst hefur í t.d. Indlandi og Kína. Einungis lítill hluti gjaldeyristekna af fataútflutningnum og ferðastarfsemi verður hins vegar eftir í landinu. Aðrar helstu útflutningsvörur eru timbur, gúmmi, rís, fiskur, tóbak og skófatnaður. Fiskur er einnig ein mikilvægasta fæðutegundin í landinu að næringargildi og er hans neytt ýmist fersks, þurrkaðs, reykts eða saltaðs.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum