Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2004 Utanríkisráðuneytið

Stofnað til stjórnmálasambands við Tógó

Undirritun yfirlýsingar um stjórnmálasamband við Tógó
Undirritun yfirlýsingar um stjórnmálasamband við Tógó

Föstudaginn 19. nóvember sl. undirrituðu þeir Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, og Pascal A. Bodjona, sendiherra Togo í Bandaríkjunum, yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands ríkjanna.

Togo er tæpra fimm milljón manna ríki í Vestur-Afríku, liggur milli Gana og Benín og er liðlega helmingur af landsstærð Íslands. Í norðri á það landamæri við Búrkína Fasó. Strandlengja Tógó í suðri, við Benínflóa, er aðeins liðlega 100 kílómetrar að lengd og ber nafnið Þrælaströnd, sem segir nokkuð um sögu landsins. Það hlaut sjálfstæði árið 1960.

Þjóðartekjur eru með þeim minnstu af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, meðalævi íbúa aðeins 52 ár, ólæsi útbreitt og barnadauði hár. Langvarandi deilur hafa verið með íbúum í norðanverðu og sunnanverðu landinu.

Höfuðborgin Lomé er ein mikilvægasta hafnarborg Vestur-Afríku og sinnir nágrannalöndum. Flutningakerfi landsins er gott og að mati alþjóðastofnana er stjórnsýsla í landinu vel rekin.

Fosfatnámur hafa verið meðal helstu auðlinda Tógó og landið fullnægir innlendri spurn eftir matvælum. Vonir eru bundnar við að olíuleit skili árangri. Fiskveiðar hafa verið nokkrar, en sjávarauðlindir vannýttar og stjórnvöld í höfuðborginni, Lomé, hafa áhuga á samstarfi við íslensk fyrirtæki um uppbyggingu fiskveiða og vinnslu.

Ræðissamband hefur verið milli Íslands og Tógó í tvö ár. Kjörræðismaður Tógó á Íslandi er dr. Njörður P. Njarðvík.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum