Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2004 Utanríkisráðuneytið

Stofnað til stjórnmálasambands við Súrínam

Sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Edwald W. Limon undirrita yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands
Sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Edwald W. Limon undirrita yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands

Þriðjudaginn 9. nóvember sl. undirrituðu fastafulltrúar Íslands og Súrínam hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Edwald W. Limon, yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands milli ríkjanna. Súrínam er síðasta ríki Suður-Ameríku, sem Ísland tekur upp stjórnmálasamband við.

Súrínam liggur að Atlantshafsströnd norðaustanverðrar Suður-Ameríku, umlukið Gvæjönu, Brasilíu og Frönsku Gvæjönu. Íbúar þess eru liðlega 400 þúsund talsins. Í landinu eru auðugar báxítnámur, en báxít er það hráefni sem notað er til álframleiðslu. Af öðrum verðmætum hráefnum, sem þegar eru unnin, eru olía og gull. Sjávarútvegur er þó nokkur, einkum rækjuveiðar.

Súrínam var hollensk nýlenda þar til landið hlaut sjálfstæði árið 1975 og gerðist sama ár aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Samband þess við Holland er enn mikið og náið og það hefur notið umtalsverðar aðstoðar Hollendinga við efnahagsuppbyggingu. Súrínamar hafa óskað aðstoðar við þróun atvinnulífs og hafa áhuga á samstarfi við Íslendinga um frekari uppbyggingu sjávarútvegs. Í landinu eru líka miklir og vannýttir möguleikar á ferðaþjónustu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum