Hoppa yfir valmynd
11. júní 2004 Utanríkisráðuneytið

Áskorun varðandi mannréttindabrot gegn föngum í herstöðinni við Guantanamo-flóa

Utanríkisráðherra barst þann 27. maí s.l. áskorun frá nokkrum stéttarfélögum, félagasamtökum og vefsíðum, varðandi mannréttindabrot gegn föngum sem haldið er í herstöðinni við Guantanamo-flóa á Kúbu. Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins hefur svarað erindinu á eftirfarandi hátt:

,,Reykjavík, 8. júní 2004

Með vísan til áskorunar nokkurra stéttarfélaga, félagasamtaka og vefsíða, dags. 27. maí sl., þess efnis að ríkisstjórn Íslands komi á framfæri mótmælum við ríkisstjórn Bandaríkjanna vegna mannréttindabrota gegn föngum sem haldið er í herstöðinni við Guantanamo-flóa á Kúbu, skal tekið fram að formlegum mótmælum hefur þegar verið komið á framfæri.

Það var gert á fundi Sturlu Sigurjónssonar, skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, með Sichan Siv, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Efnhags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna, 23. apríl sl. og svo á fundi Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með James I. Gadsden, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, 18. maí sl.

Af þessu tilefni er ástæða til að vísa til bréfs sem skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sendi Lögfræðingahóps Íslandsdeildar Amnesty International 19. apríl sl., þar sem segir m.a.: ,,Hvað varðar fangana í Guantanamo Bay leggja íslensk stjórnvöld áherslu á að Bandaríkjamenn, sem allir aðrir, fari í einu og öllu eftir gildandi alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum varðandi stríðsfanga. Flestir fanganna í Guantanamo Bay voru handteknir í Afganistan sem meintir meðlimir Al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna og hér er því hugsanlega um hættulegustu hryðjuverkamenn í heimi að ræða. Þetta þýðir þó ekki að þeir séu réttlausir og njóti ekki verndar alþjóðlegra mannúðar- og mannréttindalaga. Íslensk stjórnvöld telja að um fanga í Guantanamo Bay gildi ákvæði Genfarsamninganna þar til staða þeirra verður endanlega ákvörðuð af þar til bæru dómsvaldi. Meðferð stríðsfanganna þarf að vera mannsæmandi og réttlát málsmeðferð þarf að vera tryggð. Jafnframt þarf réttarstaða fanganna að vera skýr. Því fagna íslensk stjórnvöld ákvörðun Hæstaréttar Bandaríkjanna, sem nýverið ákvað að taka til meðferðar mál sem varða lögmæti þess að halda útlendingum í Guantanamo Bay herstöðinni sem sakaðir eru um að hafa barist með hryðjuverkasamtökum Al-Qaeda eða Talibanastjórninni í Afganistan. Þessari ákvörðun hefur einnig verið fagnað af mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna"."

Utanríkisráðuneytið

Reykjavík, 11. júní 2004.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum