Hoppa yfir valmynd
24. maí 2004 Utanríkisráðuneytið

Eftirlit með forsetakosningum

Nr. 23

Í tilefni af ítrekuðum yfirlýsingum Ástþórs Magnússonar, frambjóðanda í kjöri til embættis forseta Íslands 26. júní 2004 vill utanríkisráðuneytið koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri.

Fastanefnd Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu tilkynnti yfirmanni Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE með erindi dags. 12. maí sl. um væntanlegar forsetakosningar á Íslandi og bauð stofnuninni, í samræmi við samþykkt stofnunarinnar varðandi þau mál frá 29. júní 1990, að skoða þörfina á að senda eftirlitsnefnd til Íslands til að fylgjast með framkvæmd kosninganna.

Fastanefnd Íslands tilkynnti síðan á ráðsfundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu 13. maí sl. að forsetakosningar yrði haldnar á Íslandi 26. júní 2004 og að Lýðræðis- og mannréttindastofnuninni hefði verið sent boð um að skoða þörf á eftirliti með kosningunum. Jafnframt var þeim aðildarríkjum ÖSE, sem þess óskuðu, boðið að senda fulltrúa til eftirlits.

Það er hins vegar alfarið sjálfstæð ákvörðun Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE hvort slíkt eftirlit er tekið upp með kosningum í aðildarríki ÖSE og þá einnig með hvaða hætti.

Utanríkisráðuneytið

Reykjavík, 24. maí 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum