Hoppa yfir valmynd
10. maí 2004 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs

Hinn 6. maí 2004, afhenti Helgi Ágústsson sendiherra, Daniel Scioli varaforseta Argentínu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Argentínu með aðsetur í Washington, D.C.

Samskipti Íslands og Argentínu byggja á gömlum merg. Ræðissamband komst á milli Íslands og Argentínu árið 1884 þegar H. J. Ernst var skipaður varakjörræðismaður fyrir Argentínu í Reykjavík. Fyrsti kjörræðismaður Íslands í Argentínu var skipaður árið 1952 og sama ár hófst stjórnmálasamband milli landanna er Thor Thors sendiherra afhenti Juan Peron forseta trúnaðarbréf sitt. Sendiráð Íslands í Washington, D.C. hefur annast stjórnmálasamskiptin fyrir Íslands hönd og hefur argentínska sendiráðið í Osló annast samskiptin fyrir Argentínu.

Ísland hefur aðalræðismannsskrifstofu í Buenos Aires og er Walter R. Koltonski aðalræðismaður. Telur Koltonski marga samvinnumöguleika milli ríkjanna vera fyrir hendi á viðskiptasviðinu og eru nokkur af fremstu tæknifyrirtækjum Íslands þekkt þar í landi. Unnið er að gerð loftferðasamnings milli ríkjanna.

Viðskiptajöfnuður Íslands við Argentínu er nú óhagstæður. Innflutningur frá Argentínu jókst um 83,5% milli áranna 2002 og 2003 og varð þá 49 milljónir króna. Var þar helst um að ræða sjávarafurðir en einnig grænmeti, ávexti og drykkjarvörur.

Útflutningur til Argentínu jókst jafnt og þétt frá árinu 2000 til 2002, en minnkaði töluvert árið 2003, er hann fór í 23,9 milljón króna. Útflutningur hefur verið fyrst og fremst á spunagarni og vefnaðarvörum, auk véla- og tæknibúnaðar.

Á meðfylgjandi heimasíðu eru töflur um viðskipti landanna og upplýsingar um inn- og útflutning eftir vörudeildum árið 2002:

http://www.vur.is/interpro/utanr/vur.nsf/pages/erl-vidskiptatolur.html

Samstarf er á milli Háskóla Íslands og einkarekins háskóla í Argentínu, sem nefnist Universidad del Salvador. Eru regluleg námsmannaskipti á milli þessara tveggja skóla. Hólmfríður Garðarsdóttir, lektor í spænsku við Háskóla Íslands, hefur unnið að þessum námsmannasamskiptum og unnið að gerð bókar um argentínskar samtímabókmenntir, sem mun koma út á næstunni. Skipulagði hún tvær vel heppnaðar íslenskar kvikmyndahátíðir í Argentínu í lok síðasta árs. Var sú fyrri haldin í Buenos Aires í nóvember og sú síðari í borginni Rosario í byrjun desember, og voru þar íslensku kvikmyndirnar "Nói Albínói", "101 Reykjavík", "Á köldum klaka" og "Börn náttúrunnar" til sýninga. Hátíðin í Rosarioborg var haldin í samvinnu við Universidad Nacional de Rosario. Kvikmynd Hilmars Oddsonar "Kaldaljós" var sýnd á kvikmyndahátíð í Argentínu í mars síðastliðnum.

Í undirbúningi er argentísk kvikmyndahátíð á Íslandi í maímánuði, og eru áætlanir um að fá kennara frá Buenos Aires til að halda fyrirlestra um það leyti. Sérstakur áhugamaður um norræna og íslenska menningu og þjóðlíf er dr. Enrique del Acebo Ibanez, þjóðfélagsfræðingur og háskólakennari við Universidad del Salvador. Einn íslenskur nemandi er við nám í Universidad del Salvador eins og er.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum