Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2003 Utanríkisráðuneytið

Opinber heimsókn utanríkisráðherra Svíþjóðar

Nr. 012

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Anna Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, kemur í opinbera heimsókn til Íslands dagana 19.-20. febrúar næstkomandi í boði Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.

Málefni er varða stækkun Evrópusambandsins, framtíð EES samningsins og staðan í Íraksmálinu verða efst á baugi á fundi utanríkisráðherra með sænskum starfsbróður sínum næstkomandi fimmtudag 20. febrúar. Ráðherrarnir munu jafnframt ræða ýmis mál er varða gagnkvæm samskipti Íslands og Svíþjóðar og samstarf á alþjóðavettvangi, þar með talið hvalamál og samstarfið í Alþjóða hvalveiðiráðinu auk formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og í kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hjá alþjóðabankanum. Formennska Íslands í þessu kjördæmi alþjóðabankans hefst í haust en þá mun Íslendingur jafnframt taka við starfi aðalfulltrúa Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í stjórn alþjóðabankans.

Anna Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, mun jafnframt eiga fundi með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, Siv Friðleifsdóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda og utanríkismálanefnd Alþingis. Hún mun einnig heimsækja Alþingi og kynna sér starfsemi þingsins.

Utanríkisráðherra Svíþjóðar mun einnig kynna sér starfsemi orðabókar Háskóla Íslands og halda fyrirlestur á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands næstkomandi fimmtudag, 20. febrúar um reynslu Svía af aðild að Evrópusambandinu og áhrif smærri ríkja innan þess. Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 101 í Odda og hefst kl. 12.00. Hann er öllum opinn.

Athygli fjölmiðla er vakin á því að boðað er til blaðamannafundar utanríkisráðherranna næstkomandi fimmtudag, 20. febrúar, og hefst fundurinn kl. 09.50 í fundarsal á 2. hæð utanríkisráðuneytisins, Rauðarárstíg 25.

Nánari upplýsingar um Önnu Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, þ.m.t. æviágrip, er að finna á slóðinni www.regeringen.se



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 17. febrúar 2003.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum