Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2002 Utanríkisráðuneytið

Fyrsti fundur utanríkisráðherra NATO-Rússlandsráðsins frá stofnun þess í maí sl.

Nr. 129

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í morgun fyrsta fund utanríkisráðherra NATO-Rússlandsráðsins frá stofnun þess í maí sl., en nú stendur yfir leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Prag í Tékklandi.

Utanríkisráðherra lýsti á fundinum ánægju sinni með hversu vel samstarfið gengur í hinu nýja ráði og sýndi það hversu góð og náin samskipti NATO og Rússlands væru orðin. Þá undirstrikaði hann, að ákvörðun Atlantshafsbandalagsins um stækkun væri ekki beint gegn Rússlandi, heldur myndi stækkun auka öryggi og stöðugleika á öllu Evró-Atlantshafssvæðinu.

Ráðherrarnir samþykktu starfsáætlun ráðsins, sem m.a. felur í sér samstarf í baráttunni gegn alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum, samvinnu á sviði almannavarna og leit og björgun á sjó.

Þá funduðu utanríkisráðherrar NATO-Úkraínunefndarinnar, en samskipti bandalagsins og Úkraínu hafa undanfarið verið í lægð vegna meintrar sölu Úkraínumanna á ratsjárbúnaði til Írak. Sætti Úkraína talsverðri gagnrýni vegna málsins, en ráðherrarnir lögðu eigi að síður áherslu án mikilvægi samskiptanna sem yrðu að byggjast á gagnkvæmu trausti.

Yfirlýsing formanns NATO-Rússlandsráðsins frá fundinum og ýmislegt annað efni um fundinn er að finna á heimasíðu bandalagsins: www.NATO.int.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 22. nóvember 2002


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum