Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2002 Utanríkisráðuneytið

Ráðherraráðstefna samfélags lýðræðisríkja

Nr. 122

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Dagana 10. til 12. nóvember var haldin í Seúl höfuðborg Suður-Kóreu Ráðherraráðstefna samfélags lýðræðisríkja (Ministerial Conference of the Community of Democracies) undir yfirskriftinni "Lýðræði: fjárfesting til friðar og velsældar" (Democracy: Investing for Peace and Prosperity). Í stað Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra sótti ráðstefnuna Ólafur Egilsson sendiherra í Peking en sendiráðið þar annast tengslin við Suður-Kóreu.

Samfélag lýðræðisríkja var formlega stofnað í Varsjá fyrir tveimur árum og stóð Halldór Ásgrímsson að stofnuninni fyrir Íslands hönd. Þá voru áréttaðir ýmsir grundvallarþættir lýðræðis -- en á ráðstefnunni nú var í kjölfar þessa kveðið á um ýmiss konar aðgerðir til eflingar og útbreiðslu lýðræðislegra stjórnarhátta. Mest af störfum ráðstefnunnar fór fram í fjórum hringborðshópum sem helgaðir voru (1) styrkingu lýðræðislegra stofnana, (2) svæðasamstarfi til eflingar lýðræði, (3) fjölmiðlun og lýðræði, og (4) samhæfingu lýðræðisaðstoðar.

Einnig var á ráðstefnunni samþykkt sérstök ályktun gegn hryðjuverkastarfsemi sem einni skaðvænlegustu ógnun við lýðræði nú á tímum.

Af Íslands hálfu var m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess til útbreiðslu lýðræðis að lýðræðisríkin standi vel á verði um innviði lýðræðislegra stjórnarhátta sinna og verði þannig sem eftirsóknarverðust fyrirmynd. Lýst var yfir öflugum stuðningi við aukið svæðasamstarf sem vænlega leið til eflingar lýðræðis. Sömuleiðis var minnt á mikilvægi sem víðtækastrar þátttöku allra þjóðfélagsþegna í að treysta viðgang lýðræðisins.

Meðal þeirra sem ávörpuðu ráðstefnuna var Kim Dae-jung forseti Suður-Kóreu sem á sínum tíma sat í fangelsi einræðisafla en hefur átt veigamikinn þátt í uppbyggingu lýðræðis í landi sínu jafnframt því sem hann hefur beitt sér ötullega fyrir sameiningu Kóreu undir merkjum lýðræðis. Einnig var flutt ávarp Kofi Annan aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og fleiri leiðtoga.

Lýðræðisríkjum hefur fjölgað verulega á síðasta áratug m.a. eru nú 44 lýðræðisríki innan vébanda Evrópuráðsins en voru einungis 23 árið 1989. Rúmlega 40 ráðherrar sóttu Ráðstefnu samfélags lýðræðisríkja nú en um 110 ríki og fjölþjóðasamtök áttu þar fulltrúa eða áheyrnarfulltrúa. Stjórnandi ráðstefnunnar var Choi Sung-hong utanríkisráðherra Suður-Kóreu.

Allmörg lýðræðisríki þ.á. m. nýfrjáls ríki eiga við stjórnarfarsleg vandamál að etja og er vænst að þátttakan í framangreindu samstarfi styrki lýðræðisþróun þeirra.

Næsta Ráðstefna samfélags lýðræðisríkja verður haldin í Santiago höfuðborg Chile snemma árs 2005 en forystuhópur tíu ríkja mun í millitíðinni hafa forgöngu um framkvæmd hinnar nýgerðu áætlunar.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 13. nóvember 2002



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum