Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 107, 12. nóvember 1999 Norðlægð vídd Evrópusambandsins

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 107






Í dag lauk tveggja daga ráðstefnu um hina norðlægu vídd. Ráðstefnan var haldin í Helsinki í boði Finnlands í krafti formennsku þess innan Evrópusamsambandsins. Var utanríkisráðherrum aðildarríkja ESB, Rússlands, Íslands, Noregs, Póllands og Eystrasaltsríkjanna boðið til ráðstefnunnar.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sótti ráðstefnuna fyrir hönd Íslands og Norrænu ráðherranefndarinnar. Utanríkisráðherra lagði höfuðáherslu á mikilvægi heilbrigðs lífríkis og skynsamlegrar nýtingar náttúruauðlinda. Hann sagði að mengun á hafsvæðinu á norðurslóðum eigi að miklu leyti rætur að rekja til athafna utan svæðisins og vék sérstaklega að því að lífríki hafsins stæði ógn af mengun frá landstöðvum og sagðist ráðherra vona að samvinna innan hinnar norðlægu víddar yrði til þess að koma í veg fyrir þá ógn sem lífríki hafsins stafaði af geymslu geislavirks úrgangs í rússneska hluta Barentssvæðisins.

Utanríkisráðherra greindi frá fundi umhverfisráðherra Norðurlanda í Stokkhólmi þann 10. nóvember s.l., þar sem samþykktar voru tillögur um stuðning við stefnumið Evrópusambandsins um verndun umhverfis á norðurslóðum, þ.á.m. var tillaga um aukna áherslu á gerð og framkvæmd alþjóðasamnings til að koma í veg fyrir losun þrávirkra lífrænna efna.

Eftir að Finnland gerðist aðili að Evrópusambandinu hefur verið unnið að því að þess hálfu að gera hina norðlægu vídd að varanlegri stefnu þess. Í því felst að Evrópusambandið verði í vaxandi mæli að takast á við vandamál sem tengjast norðurslóðum, svo sem að því er varðar umhverfismál, nýtingu náttúruauðlinda, vísindasamstarf, samgöngur og afbrotavarnir. Litið er svo á að í kjölfar ofangreindrar ráðstefnu muni hin norðlæga vídd skipa sess sem eitt af aðalviðfangsefnum Evrópusambandsins í framtíðinni.

Ísland hefur frá upphafi stutt eftir því sem kostur er stefnu Finnlands í sambandi við hina norðlægu vídd. Í formennskuskjali Íslands á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar er sérstakur kafli undir heitinu fólk og haf í norðri, sem er nátengd áherslum Finnlands um norðlægu víddina. Ísland stóð fyrir ráðstefnu í Brussel þann 11. október s.l. sem var liður í undirbúningi undir ofangreinda ráðstefnu utanríkisráðherranna.




Í kvöldverðarboði í boði forseta Finnlands í gærkvöldi kom það í hlut Halldórs Ásgrímssonar að flytja þakkarávarp fyrir hönd þátttökuríkjanna.


Ræða Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra á fundi ráðherranna í morgun er hjálögð til fróðleiks.


- SCAN0230.TIF






Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 12. nóvember 1999.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum