Hoppa yfir valmynd
7. október 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 085, 07. október 1999.Heimsókn Strobe Talbott, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 085


Strobe Talbott, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, kemur í vinnuheimsókn til Íslands 7. - 10. október næstkomandi. Aðstoðarutanríkisráðherrann mun eiga fund með Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra, og taka þátt í dagskrá ráðstefnunnar Konur og lýðræði við árþúsundamót ásamt frú Hillary Rodham Clinton, forsetafrú Bandaríkjanna.

Á fundi ráðherranna föstudaginn 8. október næstkomandi verða tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna ásamt samstarfi ríkjanna á sviði alþjóðamála efst á baugi.

Þeir munu meðal annars fara yfir stöðu ýmissa tvíhliða mála og ræða málefni Sameinuðu þjóðanna ásamt framtíðarskipan öryggismála í Evrópu með áherslu á Atlantshafsbandalagið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Loks mun utanríkisráðherra Íslands, sem einnig er formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, greina aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna frá starfi Evrópuráðsins og helstu málefnum á dagskrá ráðsins um þessar mundir.

Athygli fjölmiðla er vakin á því að efnt verður til blaðamannafundar utanríkisráðherra og aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í Ráðherrabústaðnum, Tjarnargötu föstudaginn 8. október kl. 10:30



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 7. október 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum