Hoppa yfir valmynd
25. mars 1996 Utanríkisráðuneytið

Drög að samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 19


Samninganefndir íslenskra og bandarískra stjórnvalda hafa nú lokið störfum og liggja fyrir endanleg drög að samkomulagi þjóðanna um framkvæmd varnarsamstarfsins á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951. Samkomulagsdrögin hafa verið samþykkt af íslenskum stjórnvöldum og utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og bandarísku Atlantshafsherstjórninni. Búist er við formlegri staðfestingu varnarmálaráðuneytisins á næstu dögum. Samkomulag þetta er framhald svipaðs samkomulags um framkvæmd varnarsamstarfsins frá 4. janúar 1994 er skyldi endurskoðast að tveimur árum liðnum.

Hið nýja samkomulag endurspeglar mat beggja landanna á aðlögun starfsemi varnarstöðvarinnar að nýjum og breyttum aðstæðum. Með samkomulaginu eru varnir Íslands tryggðar með trúverðugum hætti. Varnarviðbúnaður verður eins og verið hefur undangengin tvö ár.

Samkomulag íslenskra og bandarískra stjórnvalda, er nú liggur fyrir, felur í hnotskurn í sér eftirfarandi atriði:

- Ítrekaðar eru skuldbindingar beggja ríkjanna um varnir Íslands á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 og aðildar að Atlantshafsbandalaginu, og staðfest er áframhaldandi vera varnarliðs Bandaríkjanna í varnarstöðinni. Áréttað er áframhaldandi náið samstarf í öryggis- og varnarmálum, bæði tvíhliða og innan Atlantshafsbandalagsins.

- Ákveðið er að varnarviðbúnaður verði óbreyttur frá því sem ákveðið var í bókun þjóðanna frá 4. janúar 1994. Í því felst meðal annars að aldrei verða færri en fjórar orrustuþotur staðsettar á Íslandi. Jafnframt er staðfest að rekstur þyrlubjörgunarsveitar varnarliðsins verður óbreyttur og mun hún veita sömu þjónustu og áður. Heræfingunni Norður-Víkingi verður framhaldið á tveggja ára fresti, með áherslu á að aðlaga varnarsveitir og varnaráætlanir fyrir Ísland sem best að ríkjandi aðstæðum hérlendis.

- Áhersla er lögð á að áfram verði reynt að draga úr kostnaði vegna varnarstöðvarinnar og í því skyni verði áfram starfrækt nefnd háttsettra embættismanna sem hefur það hlutverk að gera tillögur um leiðir til þess að draga úr kostnaði vegna reksturs varnarstöðvarinnar.

- Samkomulagið felur jafnframt í sér að staðfestur er ásetningur beggja ríkja um aðlögun fyrirkomulags verktöku fyrir varnarliðið að breyttum aðstæðum. Áveðið er að árið 1998 verði lokið athugun á reynslu af útboðum á framkvæmdum fyrir Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins og þjónustuverkefnum fyrir varnarliðið. Á grundvelli þeirrar athugunar verða settar reglur um samkeppnisútboð fyrir byggingaframkvæmdir og viðhaldsverkefni á vegum varnarliðsins. Gerir samkomulagið ráð fyrir því að eitt verkefni verði boðið út á almennum markaði á grundvelli þeirra reglna árið 1999 og tvö verkefni árið 2000. Að því loknu er gert ráð fyrir að verktaka á þessu sviði verði boðin út á almennum markaði í áföngum, allt fram til janúarmánaðar árið 2004. Í þessu felst að einkaréttur Íslenskra aðalverktaka og Keflavíkurverktaka á framkvæmdum fyrir varnarliðið verður því endanlega afnuminn að öllu leyti í janúar árið 2004.

- Gildistími samkomulagsins er til fimm ára, og geta samningar um endurskoðun þess hafist á fimmta ári gildistíma. Hinn langi gildistími samkomulagsins tryggir stöðugleika og treystir farsælt varnarsamstarf ríkjanna fram á næstu öld.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 25. mars 1996

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum