Hoppa yfir valmynd
15. desember 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 125, 15. desember 1999.Haustfundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Brussel.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 125



Á haustfundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag, 15. desember 1999, bar hæst umræður um þróun Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum, en einnig var fjallað um ástandið á Balkanskaga.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ávarpaði fundinn og fjallaði um þróun sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins (ESB) á nýloknum leiðtogafundi í Helsinki. Sagði hann að sú ákvörðun ESB að skilgreina þetta ferli á grundvelli evrópsks samruna innan ESB fremur en á breiðum grunni gæti stefnt í hættu eflingu öryggis og stöðugleika í Evrópu. Lagði hann áherslu á mikilvægi þátttöku evrópskra bandalagsríkja sem ekki væru í ESB í mótun ákvarðana innan ESB á þessu sviði, enda snertu slíkar ákvarðanir þau öll. Sagðist ráðherrann telja að óbreytt stefna ESB gæti vegið að samheldni og skilvirkni innan Atlantshafsbandalagsins. Ákvörðun leiðtogafundarins í Helsinki að setja á stofn viðeigandi stofnanir til samstarfs við önnur evrópsk bandalagsríki gæti hinsvegar með ásættanlegri tilhögun komið í veg fyrir slíka öfugþróun, þannig að öll viðeigandi Evrópuríki gætu lagt af mörkum til ferlis sem varðar grundvallarhagsmuni allrar Evrópu. Tók ráðherrann jafnframt fram að farsæl þróun öryggis- og varnarmála í Evrópu myndi grundvallast á góðu samstarfi þessara tveggja stofnana í framtíðinni.

Á sérstökum vinnuhádegisverði fjölluðu utanríkisráðherrarnir um samskipti Atlantshafsbandalagsins við Rússland annarsvegar og um áform Bandaríkjanna um uppbyggingu á takmörkuðum eldflaugavörnum hinsvegar. Lýstu þeir yfir áhyggjum vegna hernaðaraðgerða Rússa í Tjétsníu sem, þrátt fyrir að vera beint gegn tjétsneskum skæruliðum, hefðu haft alvarleg áhrif á líf allra almennra borgara héraðsins, en vel á þriðja hundrað þúsund íbúar Tjétsníu eru nú á flótta. Hvöttu þeir rússnesk stjórnvöld, svo og kjörna fulltrúa héraðsins, til að setjast að samningaborði og finna friðsamlega lausn hið fyrsta. Ráðherrarnir vonuðust einnig til áframhaldandi samvinnu við rússnesk stjórnvöld innan Samstarfsráðs Rússlands og bandalagsins í Brussel. Hvað varðaði áform bandarískra stjórnvalda um takmarkaðar eldflaugavarnir lýsti Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, yfir ánægju með það að Bandaríkjamenn hefðu ákveðið að upplýsa aðildarríki Atlantshafsbandalagsins um málið með góðum fyrirvara og vonaðist til þess að endanleg ákvörðun um málið, sem fyrirhuguð er næsta sumar, yrði tekin í nánu samráði við aðildarríki bandalagsins.

Á fundi Samstarfsnefndar Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu síðdegis var m.a. fjallað um samstarfsáætlun nefndarinnar fyrir árið 2000. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra tók til máls og minntist m.a. á að í nýlegri heimsókn sinni til Úkraínu, sem farin var í formennskutíð Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins, hefði hann fengið tækifæri til að leggja eigið mat á ástandið í landinu. Lýsti hann yfir ánægju með niðurstöður nýafstaðinna kosninga í Úkraínu og vonaðist til að þær væru til marks um vilja til áframhaldandi þróunar í átt til lýðræðis og aukinna mannréttinda í landinu, en á því sviði þyrftu þarlend stjórnvöld að taka sig enn frekar á.

Á morgun er fyrirhugaður fundur utanríkisráðherranna með ráðherrum 27 samstarfsþjóða Atlantshafsbandalagsins (EAPC), sem lýkur síðdegis.

Auk þess að vísa í hjálagða yfirlýsingu fundar utanríkisráðherra bandalagsins frá í dag er, til upplýsinga, bent á heimsíðu Atlantshafsbandalagsins á Internetinu sem er www.nato.int




- SCAN1236.TIF





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. desember 1999.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum