Hoppa yfir valmynd
8. október 2002 Utanríkisráðuneytið

Greinargerð um rétt Íslands samkvæmt EES-samningnum til þátttöku í nefndum ESB

Nr. 101

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Í morgun lagði Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, fram minnisblað í ríkisstjórn ásamt greinargerð um rétt Íslands samkvæmt EES-samningnum til þátttöku í nefndum á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Greinargerðina unnu embættismenn úr stjórnarráðinu og var markmið hennar að kanna þátttöku Íslands og skilgreina hvað mætti betur fara.

Greinargerðin er árangur af samvinnu EFTA-ríkjanna og EFTA-skrifstofunnar sem hófst á liðnu ári til að styrkja aðkomu EES/EFTA-ríkjanna að mótun EES-reglna og þar með að efla EES-samninginn. Aðgangur að þessum nefndum er helsta tækifæri Íslands, Noregs og Liechtenstein til að hafa áhrif á löggjöf ESB.

Í greinargerðinni er vakin athygli á mikilvægi þess að Ísland haldi vöku sinni þegar löggjöf sambandsins er undirbúin og nýti þann rétt sem það hefur samkvæmt EES-samningnum til þátttöku í nefndum ESB en þar er fyrst og fremst um að ræða ýmsar sérfræðinganefndir. Eru rakin nokkur dæmi þess hve miklu máli það kann að skipta að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri strax á þessu stigi. Lagt er til að ráðuneytum verði falið að endurskoða þátttöku Íslands með það að markmiði að auka hana og starfsemi er henni tengist. Í því skyni verði meðal annars mörkuð stefna um hversu miklu fé skuli varið til þess svo að tryggja megi að þátttakan ráðist af faglegum sjónarmiðum fremur en fjárhagslegum takmörkunum og verði kannað hvort ástæða sé til þess að stofna sérstakan ferðasjóð í þeim tilgangi.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 8. október 2002


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum