Hoppa yfir valmynd
23. apríl 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 032, 23. apríl 1999: Leiðtogafundur, í tilefni 50 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins, haldinn í Washington D.C.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu



Nr. 032

Leiðtogafundur, haldinn í tilefni af 50 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins, hófst í Washington D.C. í dag, 23. apríl, og lýkur á morgun. Davíð Oddsson, forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra sitja fundinn fyrir Íslands hönd. Í framhaldi af leiðtogafundinum verða haldnir fundir bandalagsins með Úkraínu og með nágrannaríkjum Kosovo-héraðsins, auk þess sem haldinn verður leiðtogafundur aðildarríkja Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins. Fundunum lýkur á sunnudag, 25. apríl.

Á fundi leiðtoganna í dag var fjallað um ástandið í Kosovo. Í sérstakri yfirlýsingu fundarins kemur m.a. fram að átökin í Kosovo brjóti í bága við þau grundvallarsjónarmið sem Atlantshafsbandalagið hefur haft að leiðarljósi sl. 50 ár. Leiðtogarnir voru einhuga um að halda bæri aðgerðum bandalagsins í Sambandsríki Júgóslavíu áfram þar til Milosevic gengi að þeim fimm grundvallarskilyrðum sem nefnd eru í hjálagðri Kosovo yfirlýsingu.

Á opnunarhátíð 50 ára afmælisfundarins undirrituðu leiðtogarnir nítján Washington yfirlýsinguna, sem endurspeglar framtíðarsýn Atlantshafsbandalagsins. Yfirlýsingin fylgir hjálagt.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 23. apríl 1999.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum