Hoppa yfir valmynd
25. september 2002 Utanríkisráðuneytið

Afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja

Nr. 096

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Á fundi Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra og Anfinn Kallsberg, lögmanns Færeyja, í Þórshöfn í dag náðist samkomulag um afmörkun umdeilda hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja. Þar með er lokið afmörkun efnahagslögsögu Íslands gagnvart lögsögu nágrannalandanna, en áður hefur verið gengið frá afmörkun efnahagslögsögunnar gagnvart lögsögu Jan Mayen, Grænlands og Bretlands.

Í samkomulaginu felst að nyrðri hluti umdeilda svæðisins, sem liggur norðan 63° 30} og nemur um tveimur þriðju hlutum af svæðinu í heild, skiptist þannig milli aðila að Ísland fær 60% í sinn hlut en Færeyjar 40%. Syðsti hluti umdeilda svæðisins, sem liggur sunnan 63° 30} og nemur um þriðjungi af svæðinu í heild, skiptist hins vegar jafnt á milli aðila. Vegna sérstakra aðstæðna á syðsta hluta svæðisins var um það samið að aðilar heimili fiskiskipum hvors annars veiðar á sínum hluta svæðisins og verður því í raun um sameiginlegt nýtingarsvæði landanna tveggja að ræða. Á þessum hluta svæðisins er að finna rækjuhóla sem hvorki er að finna í næsta nágrenni til vesturs né austurs og myndi það gera fiskiskipum beggja aðila erfitt fyrir að stunda rækjuveiðarnar ef aðgangur þeirra að svæðinu yrði takmarkaður.

Stefnt er að því að formlegur afmörkunarsamningur, sem muni ná til allrar lögsögulínunnar milli landanna, verði gerður haustið 2003 að lokinni tæknilegri endurskoðun á grunnlínupunktum hvors lands um sig.

Við útfærslu efnahagslögsögunnar í 200 sjómílur árið 1975 ákváðu íslensk stjórnvöld að nota Grímsey og Kolbeinsey sem viðmiðunarpunkta við ákvörðun miðlínu milli Íslands og Grænlands og Hvalbak sem viðmiðunarpunkt við ákvörðun miðlínu milli Íslands og Færeyja. Dönsk stjórnvöld gerðu fyrirvara við þessa ákvörðun fyrir hönd Grænlands og Færeyja og ákvörðuðu miðlínurnar miðað við grunnlínur landanna án tillits til áðurnefndra eyja. Þar með urðu til tvö umdeild hafsvæði, annars vegar milli Íslands og Grænlands, um 11.500 km² að stærð, og hins vegar milli Íslands og Færeyja, um 3.650 km² að stærð.

Ágreiningur landanna hafði legið í láginni um árabil, en kom upp á ný sumarið 1996 þegar dönsk skip hófu loðnuveiðar á umdeilda svæðinu norður af Kolbeinsey. Í kjölfarið hófust formlegar samningaviðræður milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Færeyja hins vegar. Var m.a. vísað til þess að í 7. gr. laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn sé gert ráð fyrir að afmörkun efnahagslögsögu og landgrunns milli Íslands og annarra landa skuli eftir atvikum ákveðin með samningum við hlutaðeigandi ríki. Slíkir samningar eru háðir samþykki Alþingis.

Hinn 28. júní 1997 náðist samkomulag um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Grænlands. Í samkomulaginu, sem tók bæði til afmörkunar efnahagslögsögu og landgrunns, fólst viðurkenning á fullum áhrifum Grímseyjar við afmörkunina, en umdeilt hafsvæði vegna Kolbeinseyjar skiptist þannig að Ísland fékk 30% í sinn hlut og Grænland 70%. Fjölmargir þættir höfðu áhrif á niðurstöðuna, en ljóst er að ör minnkun Kolbeinseyjar hvatti mjög til lausnar málsins af Íslands hálfu. Samkomulagið var fært í formlegan búning með samningi sem undirritaður var 11. nóvember 1997 og nær hann til allrar miðlínunnar milli Íslands og Grænlands. Þar sem aðstæður á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja eru á margan hátt frábrugðnar aðstæðum á hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands var tekið fram í samningnum að hann hefði ekki fordæmisgildi að því er varðar afmörkun fyrrnefnda hafsvæðisins.

Af Íslands hálfu var þess freistað að ná jafnframt samkomulagi um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja. Í ljós kom hins vegar að Færeyingar voru ekki reiðubúnir að ganga til raunhæfra samninga á þessum tíma af ótta við hugsanleg fordæmisáhrif á deilu þeirra við Breta um afmörkun hafsvæðisins milli landanna þar sem miklir olíuhagsmunir kynnu að vera í húfi. Eftir að Færeyjar og Bretland náðu samkomulagi í deilumáli sínu vorið 1999 hófust samningaviðræður milli Íslands og Færeyja að nýju og hafa þær staðið síðan með hléum. Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur í utanríkisráðuneytinu, hefur farið fyrir íslensku samninganefndinni en Árni Olafsson í danska utanríkisráðuneytinu fyrir færeysku samninganefndinni.

Samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunarinnar eru fiskveiðihagsmunir Íslendinga á umdeilda svæðinu milli Íslands og Færeyja ekki miklir. Orkustofnun hefur staðfest að ekkert bendi til þess að auðlindir sé að finna á landgrunni svæðisins.

Framangreint samkomulag milli Íslands og Færeyja fylgir fréttatilkynningu þessari, ásamt mynd er sýnir skiptingu umdeilda hafsvæðisins.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 25. september 2002



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum