Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 71, 7. ágúst 1998: Ársfundur Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC).

Ársfundi Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) lauk í höfuðstöðvum samtakanna í New York, föstudaginn 31. júlí sl.

Meginviðfangsefni fundarins var markaðsaðgengi þróunarríkja á heimsmarkaðnum og þróun þess frá lokum Úrúgvæ-lotunnar, einkanlega hvað varðar tækifæri og möguleika fyrir þróunarríki og þau ríki, sem skemmst eru á veg komin, til að nýta sér hnattræna þróun og aukið frelsi í viðskiptum. Ísland hefur átt sæti í ráðinu sl. tvö ár en 54 ríki eiga hverju sinni sæti í ráðinu.

Fjöldi ályktana var samþykktur á fundinum. Má þar nefna ályktun um að árið 2002 verði helgað fjalla- og hálendissvæðum. Ísland var meðflytjandi þeirrar ályktunar. Ályktunin hvetur til markvissrar vinnu við að skapa skilyrði fyrir sjálfbærri þróun í fjalllendi. Einnig voru samþykktar ályktanir um framgang ýmissa jafnréttismála. Þá var samþykkt ályktun um að gera árið 2005 að alþjóðlegu ári smálánastarfsemi (MICROCREDIT) en samkvæmt henni eru ríkisstjórnir hvattar til að auka "smálán" til atvinnurekstrar. Lán af þessu tagi eru t.d. talin geta komið konum afar vel við að skapa sér atvinnutækifæri með eigin rekstri og efnahagslegt sjálfstæði. Markmið ályktunarinnar er að vinna bug á sárustu fátækt. Ár friðarmenningar og áratugur friðarmenningar og afnáms ofbeldis gegn börnum 2001-2010 voru efni ályktunar sem samþykkt var á fundinum, en að henni stóðu m.a. nokkrir friðarverðlaunahafar Nóbels.

Hjálmar W. Hannesson skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins flutti ræðu fyrir hönd utanríkisráðherra um markaðsaðgengi þróunarríkjanna. Auk þess tóku fulltrúar Íslands þátt í umræðunni um sjálfbæra þróun, mannréttindi og málefni kvenna.

Ísland gerðist aðili að málflutningi Evrópusambandsins í nokkrum málum, m.a. um mannúðaraðstoð, eftirfylgni stórráðstefna Sameinuðu þjóðanna, málefni kvenna og svæðisbundna samvinnu.

Sendinefnd Íslands á fundinum var skipuð Hjálmari W. Hannessyni skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Gunnari Pálssyni sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, Guðna Bragasyni sendiráðunaut og Axel Nikulássyni sendiráðsritara.

Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 7. ágúst 1998.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum