Hoppa yfir valmynd
8. desember 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 110, 8. desember 1998: Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins haldinn í Brussel, 8. desember 1998.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 110

Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins var haldinn í Brussel í dag, 8. desember. Meginviðfangsefni fundarins voru undirbúningur leiðtogafundar bandalagsins í Washington í apríl á næsta ári, ástandið á Balkanskaga og aðlögun NATO að breyttum aðstæðum. Utanríkisráðherrar Póllands, Ungverjalands og Tékklands sátu fundinn í fyrsta skipti, en fullgildingarferli um aðild þeirra að NATO lauk í bandalagsríkjunum fyrir viku.
Utanríkisráðherrarnir lögðu ríka áherslu á nauðsyn þess að finna pólitíska lausn á deilunum í Kosóvó, en hætta á að átök brjótist út á ný með vorinu veldur þeim áhyggjum. Bæði öryggissveitir Serba og frelsisher Kosóvó-Albana hafa brotið friðarsamkomulagið með ögrandi aðgerðum. Ítrekuðu utanríkisráðherrarnir að báðir deiluaðilar yrðu að virða öll skilyrði samþykkta öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Eftirlit Atlantshafsbandalagsins í Kosóvó úr lofti er daglega og eftirlit Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) er hafið, en tæplega þriðjungur 2000 eftirlitsmanna er kominn til Kosóvó. Viðbragðshersveit NATO verður komin til Fyrrverandi Júgóslavneska Sambandslýðveldisins Makedóníu fyrir jól og í janúar verða eftirlitssveitir ÖSE fullskipaðar.
Utanríkisráðherrarnir lýstu áframhaldandi stuðningi NATO við uppbyggingarstarfið í Bosníu-Hersegóvínu. Stöðugleikasveitir NATO verða þar áfram til að tryggja framkvæmd Dayton-friðarsamkomulagsins og treysta lýðræðisstofnanir í sessi svo komið verði á fót sameiginlegu réttarríki ólíkra þjóðarbrota.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd. Í máli sínu lagði hann áherslu á að núverandi samkomulag um vopnahlé í Kosóvó væri eingöngu bráðabirgðaráðstöfun en ekki framtíðarlausn. Hann kvaðst vona að pólitískt samkomulag næðist fyrir næsta vor vegna hættunnar á að átök brjótist út að nýju. Hann ítrekaði að friðargæslusveitir Atlantshafsbandalagsins í Bosníu-Hersegóvínu hefðu haft grundvallarþýðingu fyrir friðsamlega þróun í landinu og gert það að verkum að almenningur í Bosníu gæti nú í fyrsta skipti í þrjú ár séð fram á betri tíð. Hins vegar væri ljóst að hvorki NATO né aðrar alþjóðastofnanir væru þess megnugar að koma á varanlegum friði í landinu nema landsmenn vildu það sjálfir.
Ráðherra fagnaði vaxandi samskiptum NATO og Vestur-Evrópusambandsins (VES). Hann sagði að með tilliti til nýlegra umræðna um framtíðarstöðu VES gagnvart Evrópusambandinu og NATO myndu Íslendingar fylgjast náið með hvaða áhrif þróun þessara mála hefði á öryggissamstarf í Evrópu og stöðu aukaaðildarríkja VES og lagði ríka áherslu á mikilvægi tengslanna yfir Atlantshafið.
Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu helstu viðfangsefni leiðtogafundarins í Washington á 50 ára afmæli bandalagsins en þá verður framtíðarstefna þess mótuð. Pólland, Tékkland og Ungverjaland verða þá orðin aðilar og ákveða þarf hvernig staðið verður að frekari stækkun bandalagsins.
Dyrnar munu áfram standa nýjum ríkjum opnar. Einnig er gert ráð fyrir áframhaldi árangursríkrar samvinnu við ríki innan Evró-Atlantshafsráðsins (EAPC), Samstarfs um frið (PfP), Samstarfsráðs NATO og Rússlands (PJC) og Samstarfsráðs NATO og Úkraínu (NUC).
Hjálagt fylgir yfirlýsing utanríkisráðherrafundarins, ásamt sérstökum yfirlýsingum um Kosóvó, Bosníu-Hersegóvínu og aðlögun samnings um hefðbundinn herafla í Evrópu.
Í framhaldi af fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins verða haldnir í Brussel í dag og á morgun fundir utanríkisráðherra Evró-Atlantshafsráðsins, Samstarfsráðs NATO og Rússlands, og Samstarfsráðs NATO og Úkraínu.


Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 8. desember 1998.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum