Hoppa yfir valmynd
13. desember 2001 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur Fríverslunarsamtaka Evrópu í Genf

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________



Nr. 128


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, sat í dag ráðherrafund Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, í Genf. Ráðherrarnir staðfestu lok samningaviðræðna við Singapúr um fríverslun, en stefnt er að undirritun samningsins á fyrri hluta næsta árs. Þeir lögðu áherslu á að þessi samningur væri mikilvægur fyrir þær sakir að vera fyrsti fríverslunarsamningur Evrópuríkja við ríki í Austur-Asíu og hann gæti rutt braut fyrir samvinnu við önnur ríki í þessum heimshluta. Samningurinn er víðtækur og tekur til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa, samkeppnismála og hugverkaréttinda.
Á síðasta ráðherrafundi EFTA sem haldinn var í Vaduz í Lichtenstein, undirrituðu þeir samning sem dýpkar EFTA-samstarfið hvað varðar þjónustuviðskipti, fjárfestingar, fólksflutninga, gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda, opinber innkaup og reglur um úrlausn deilumála. Stefnt er að því að sá samningur taki gildi snemma á næsta ári.
Á fundinum var einnig rætt um samskipti EFTA við þriðju ríki, samskipti EFTA við Evrópusambandið, EES-samninginn og innri málefni EFTA.
Ráðherrarnir lýstu ánægju með árangur í samningaviðræðum um fríverslun við Chíle en lok þeirra eru ráðgerð á fyrri hluta næsta árs. Einnig fjölluðu ráðherrarnir um mögulegar fríverslunarviðræður við Suður Afríku. Ennfremur lögðu þeir áherslu á að ljúka fljótt samningaviðræðum við Kanada um fríverslun.
Ráðherrarnir fögnuðu árangri í viðræðum um fjölgun aðildarríkja ESB og ítrekuðu nauðsyn þess að ganga formlega frá stækkun Evrópska efnahagssvæðisins samhliða. Áfram verður kannað hvernig aðlaga skuli EES-samninginn breytingum innan ESB.
Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að við stækkun Evrópusambandsins yrðu nýir tollamúrar ekki reistir í Evrópu. Gera þyrfti ráðstafanir til að tryggja áframhaldandi fríverslun með fisk. Hann sagði að allar líkur væru á því að ESB færi fram á að EFTA-ríkin tækju þátt í að auðvelda aðlögun umsóknarríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu að innri markaðinum. Ef það yrði gert, væri fráleitt að EFTA ríkin styddu þetta framtak fjárhagslega eða með öðrum hætti, samhliða því að reistir yrðu nýir tollamúrar í Evrópu.
Í dag var einnig haldinn fundur ráðherranna og þingmannanefndar EFTA þar sem málefni EFTA og EES-samstarfsins voru rædd, auk þróunarinnar í Evrópu almennt.
Ísland tekur við formennsku í EFTA og EES frá og með áramótum.

Meðfylgjandi er fréttatilkynning EFTA frá fundinum.





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 13. desember 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum