Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2001 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrastefna WTO í Katar, erindi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um landbúnaðarviðskipti

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 112


Fjórða ráðherrastefna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hófst í gær föstudaginn 9. nóvember í Doha, Kvatar. Valgerður Sverrisdóttir, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem sækir ráðherrastefnuna fyrir hönd utanríkisráðherra, hélt í dag erindi um landbúnaðarviðskipti á sérfundi 55 aðildarríkja WTO, þ.m.t. allra aðildarríkja ESB. Fundinn sóttu aðildarríki WTO sem stutt hafa sömu sjónarmið og Ísland hvað varðar mikilvægi þess að í viðræðum um viðskipti með landbúnaðarvörur verði tekið tillit til þátta sem ekki eru viðskiptalegs eðlis.

Kom m.a. fram í máli hennar að um leið og Ísland styður langtímamarkmið um aðlögun íslensk landbúnaðar að hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi í samræmi við landbúnaðarsamning WTO þá leggi Ísland áherslu á að tekið verði tillit til þátta sem ekki eru viðskiptalegs eðlis. Vék hún sérstaklega að byggðasjónarmiðum, umhverfismálum og fæðuöryggi í því sambandi. Lagði hún áherslu á að taka verði tillit til mismunandi hagsmuna og þarfa aðildarríkjanna, jafnt iðnríkja sem þróunarríkja og leita viðeigandi jafnvægis milli viðskiptahagsmuna og hagsmuna sem ekki eru viðskiptalegs eðlis.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra tók jafnframt til máls á fundi allra aðildarríkja WTO þegar fjallað var um endurskoðun á ríkisstyrkjasamningi WTO og minnti á áherslur Íslands um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi.

Eitt höfuðmarkmið ráðherrastefnunnar er að ýta úr vör víðtækri samningalotu um frekara frelsi í heimsviðskiptum.

Á morgun flytur ráðherrann ræðu á aðalfundi ráðherrastefnunnar um áherslur og samningsmarkmið Íslands.

Meðfylgjandi er erindi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um landbúnaðarviðskipti.





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 10. nóvember 2001.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum