Hoppa yfir valmynd
18. maí 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 041, 18. maí 1999:Viðræður utanríkisráðherra við Evrópuráðherra Bretlands

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________


Nr.041
Utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson átti í gærkvöld fund í Brussel með Joyce Quin, Evrópuráðherra Bretlands. Ráðherrar ræddu stöðu mála í Kosovo, afstöðu Rússlands til málsins og mögulegar aðgerðir Evrópuríkja til að stuðla að endurkomu Kosovo-Albana til sinna fyrri heimkynna. Fyrr um daginn höfðu utanríkisráðherrar Evrópusambandsins fjallað um þessi mál.

Utanríkisráðherrann og Evrópuráðherrann ræddu einnig nánari tengsl Vestur-Evrópusambandsins við Evrópusambandið en þessi tengsl eru á dagskrá leiðtogafundar ESB í Köln 2. og 3. júní nk. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra lagði áherslu á gagnsemi af aukaaðild Íslands að VES og ítrekaði að breyting á stofnanauppbyggingu mætti ekki verða til þess að skerða þátttöku Íslands.

Utanríksráðherra skýrði afstöðu ríkisstjórnar Íslands til Evrópusambandsins og lagði áherslu á nauðsynleg og stöðug skoðanaskipti íslenskra og breskra stjórnvalda um stöðu og þróun einstakra mála innan Evrópusambandsins, einkum og sér í lagi málefni er varða hagsmuni Íslands svo sem sjávarútvegsstefnu ESB. Breski ráðherrann kvaðst telja slík skoðanaskipti mjög jákvæð og fýsileg.


Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 18. maí 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum