Hoppa yfir valmynd
21. október 1997 Utanríkisráðuneytið

Heimsókn Jacques Diouf, framkvæmdastjóra FAO

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________

    Nr. 88
Jacques Diouf, framkvæmdastjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), heimsækir Ísland miðvikudaginn 22. október næstkomandi þeirra erinda að afhenda frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, svokallaða CERES-heiðursmynt, sem gefin hefur verið út af FAO með mynd af frú Vigdísi.
    Sama dag, kl. 11:00, verður fundur Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra og framkvæmdastjóra FAO í utanríkisráðuneytinu. Til umræðu verða m.a. þróunarmál og samskipti Íslands og FAO.

    Framkvæmdastjórinn mun afhenda frú Vigdísi heiðursmyntina við athöfn í Ráðherrabústaðnum kl. 12:00 í boði forsætisráðherra. Einnig mun hann hitta að máli forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson.

    Síðar um daginn verður framkvæmdastjóra FAO boið í stutta skoðunarferð með rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni, til að kynna honum ýmsa þætti í íslenskum sjávarútvegi.

    Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hefur með margvíslegum hætti lagt FAO lið. Á leiðtogafundi FAO í Róm hinn 18. nóvember 1996 var hún kosin formaður á umræðufundi háttsettra aðila, sem fjalla um leiðir til að styrkja starf samtakanna.

    FAO hefur áður heiðrar nokkrar konur fyrir mikilsvert framlag til þeirra hugsjóna FAO að berjast á móti hungri og fæðuskorti í heiminum og gefið út slíkar myntir með myndum þeirra. Heiðursmyntin er kennd við CERES, landbúnaðargyðju Rómverja.

    Meðfylgjandi er upplýsingablað frá FAO um CERES-heiðursmyntina og dagskrá heimsóknar framkvæmdastjórans.



    Utanríkisráðuneytið,
    Reykjavík, 21. október 1997.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum