Hoppa yfir valmynd
16. júlí 1996 Utanríkisráðuneytið

Heræfingar á Íslandi 1997

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 057



Almannavarnir ríkisins og varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins, í samráði við yfirstjórn varnarliðsins og
Atlantshafsherstjórn Atlantshafsbandalagsins, vinna nú að undirbúningi umfangsmikillar almannavarnaræfingar er haldin
verður á Íslandi 25.-29. júlí 1997. Fyrirhuguð æfing fellur undir friðarsamstarf Atlantshafsbandalagsins, "Partnership for
Peace", sem er samstarfsferli ríkja Atlantshafsbandalagsins og tuttugu og sex annarra Evrópuríkja. Æfingin verður sú fyrsta
sinnar tegundar í þessu friðarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins þar sem höfuðáhersla er lögð á almannavarnarþætti.

Forsendur æfingarinnar gera ráð fyrir því að öflugur jarðskjálfti hafi orðið á Suðvesturlandi með manntjóni og gífurlegri
eyðileggingu. Gengið verður út frá því að fjarskipti og allar samgöngur liggi niðri á svæðinu og að fjöldi fólks sé grafinn í
rústum húsa.

Meginmarkmið æfingarinnar er að laga utanaðkomandi neyðarhjálp til Íslands frá ríkjum Atlantshafsbandalagsins og
friðarsamstarfsins sem best að ríkjandi almannavarnaráætlunum á Íslandi. Einnig verður lögð áhersla á að samhæfa gildandi
almannavarnaráætlanir Atlantshafsbandalagsins í því skyni að gera björgunarstarf á vegum bandalagsins markvissara ef til
náttúruhamfara af þessu tagi kæmi innan starfssvæðis þess.

Nú þegar er staðfest þátttaka fjórtán aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og friðarsamstarfsins í æfingunni. Þrjú eru
aðildarríki bandalagsins, Bandaríkin, Kanada og Danmörk, auk ellefu samstarfsríkja, Austurríkis, Finnlands, Svíþjóðar,
Tékklands, Úkraínu, Ungverjalands, Póllands, Rúmeníu, Eistlands, Litháen og Albaníu. Skipulagsaðilar gera ráð fyrir því
að þátttökuríkjum geti enn fjölgað á næstu mánuðum.

Sólveig Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins verður yfirstjórnandi æfingarinnar.



Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 16. júlí 1996

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum