Hoppa yfir valmynd
22. mars 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 022, 22. mars 1999: Undirritun samnings um afnot Byrgisins af mannvirkjum í Rockville.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 022

Mánudaginn 22. mars 1999 kl. 13:30 verða undirritaðir samningar í utanríkisráðuneytinu um afnot Byrgisins af mannvirkjum í Rockville. Rockville er fyrrum ratsjárstöð á Sandgerðisheiði sem varnarliðið starfrækti til ársins 1997, en varnarliðið hefur rýmt byggingarnar og engin starfsemi fer fram þar lengur. Byrgið er kristilegt líknarfélag sem stofnað var 1996. Félagið rekur meðferðarheimili fyrir áfengis- og fíkniefnaneytendur við Hvaleyrarbraut og Vesturgötu í Hafnarfirði og einnig í Hlíðardalsskóla í Ölfusi.
Samningarnir eru gerðir til tveggja ára og heimila Byrginu endurgjaldslaus not af mannvirkjum varnarliðsins á svæðinu til að reka þar meðferðarheimili. Um er að ræða tvo samninga, annars vegar milli utanríkisráðuneytisins og varnarliðsins, og hins vegar milli utanríkisráðuneytisins og Byrgisins, en rétt er að geta þess að öll samskipti varnarliðsins við þriðja aðila á Íslandi eru á vegum utanríkisráðuneytisins fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.
Rockville er varnarsvæði og hyggst varnarliðið skila því formlega til íslenskra stjórnvalda að tveimur árum liðnum, að undangenginni umhverfisrannsókn og þegar nauðsynlegar heimildir hafa fengist frá bandarískum stjórnvöldum. Þess er vænst að búseta Byrgisins muni koma í veg fyrir frekari spjöll á mannvirkjum þar til ákvörðun um framtíðarráðstöfun þeirra verður tekin að tveimur árum liðnum.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, mun undirrita samningana fyrir hönd utanríkisráðuneytis, David Architzel, aðmíráll, fyrir hönd varnarliðsins og Guðmundur Jónsson fyrir hönd Byrgisins.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 22. mars 1999.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum