Hoppa yfir valmynd
22. janúar 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 005, 22. janúar 1998: Utanríkisráðherra hittir fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB.

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________

Nr. 005
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag fundi með Hans Van Den Broek, Sir Leon Brittan, Anitu Gradin, Erkki Liikanen og Ritt Bjerregaard, fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. Ísland gegnir nú formennsku í EFTA.
Á fundunum var m.a. rætt um málefni Schengen og þátttöku Íslands og Noregs í því samstarfi. Kvað ráðherra það grundvallaratriði að viðunandi lausn fyndist fljótlega á grundvelli samstarfsamningsins sem undirritaður var í Lúxemborg í desember 1996.
Þá var rætt um væntanlega stækkun ESB og efnahags- og myntbandalagið. Sagði utanríkisráðherra fyrirsjáanlegt að áhrifa efnahags- og myntbandalagsins myndi gæta langt út fyrir ESB, m.a. í aðildarríkjum EFTA. Hann lagði áherslu á að EFTA ríkin fengju að fylgjast náið með þeirri þróun. Þá sagði ráðherrann að stækkun ESB myndi jafnframt leiða til stækkunar hins evrópska efnahagssvæðis og lagði sérstaka áherslu á að komið yrði á sameiginlegum umræðuvettvangi um stækkunina og áhrif hennar á EES.
Utanríkisráðherra lýsti ánægju sinni með samvinnuna á vettvangi hins evrópska efnahagssvæðis en benti á að unnt væri að efla hana enn frekar með nánara ráðherrasamstarfi.
Einnig var rætt um niðurstöður Kyoto fundarins og málflutning Íslands varðandi framkvæmd rammasamningsins um loftslagsbreytingar. Lögð var áhersla á að tekið væri tillit til sérstöðu Íslands á fjórða þingi aðildarríkja samningsins í Buenos Aires í nóvember n.k. Utanríkisráðherra gerði grein fyrir niðurstöðum skýrslu um mengun á norðurslóðum, þar sem fram kemur að þrátt fyrir að mengun á Norðurskautssvæðinu sé lítil þá sýni niðurstöðurnar fram á að þörf sé á víðtæku alþjóðlegu samstarfi, þar sem höfuðuppspretta mengunarinnar liggi utan þeirra ríkja sem liggja að Norðurskautssvæðinu. Fór utanríkisráðherra þess á leit að Evrópusambandið styddi alþjóðlegar aðgerðir til þess að draga úr mengun á þessum slóðum.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 22. janúar 1998

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum