Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2002 Utanríkisráðuneytið

Rússnesk herskip í opinberri heimsókn

Nr. 080

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Rússneski tundurspillirinn Admiral Chabanenko og birgðaskipið Sergey Ocipov eru væntanleg í flotaheimsókn til Íslands 10.-14. ágúst n.k. í boði utanríkisráðuneytisins. Tundurspillirinn mun leggja að við Miðbakkann en birgðaskipið mun liggja við akkeri á ytri höfninni. Áætlaður komutími skipanna er um kl. 19:30 laugardaginn 10. ágúst.

Skipin tilheyra Norðurflota rússneska sjóhersins. Admiral Chabanenko er 8,000 tonn að stærð og áhafnarmeðlimir 434. Sergey Ocipov er 22,000 tonn að stærð og eru áhafnarmeðlimir 124. Yfirmaður herskipanna er Victor G. Dobroskochenko vísiaðmíráll sem er næstráðandi rússneska Norðurflotans.

Í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra mun Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra bjóða áhafnirnar velkomnar á sunnudag kl. 14. Forseti Íslands heimsækir vísiaðmírál og áhafnir skipanna kl. 15.30. Heiðursskotum, 21 talsins, verður skotið við komu forseta samkvæmt alþjóðlegri siðavenju. Einnig verður skotið 19 heiðursskotum við komu sendiherra Rússlands á Íslandi um borð kl. 13.

Á meðan á heimsókn stendur hittir vísiaðmírállinn einnig fulltrúa utanríkisráðuneytisins, fulltrúa Reykjavíkurborgar og yfirmenn bandaríska varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Áhafnirnar munu standa fyrir hljóðfæraleik og dönsum á Ingólfstorgi mánudaginn 12. ágúst kl. 17 og efnt hefur verið til blakleiks á milli Íslandsmeistara Íþróttafélags stúdenta og sjóliðanna sama dag kl. 18 í íþróttahúsinu Austurbergi. Þá munu áhafnirnar etja kappi við bandaríska hermenn í knattspyrnu í Keflavík á þriðjudeginum. Áhöfnunum verður ennfremur gefinn kostur á að skoða sig um á Þingvöllum, Gullfossi og Geysi.

Admiral Chabanenko verður almenningi til sýnis á meðan á heimsókn stendur sem hér segir:

Sunnudaginn 11. ágúst frá kl. 10-12.
Mánudaginn 12. ágúst frá kl. 10-12 og 15-17.
Þriðjudaginn 13. ágúst frá kl. 10-12 og 15- 17.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 9. ágúst 2002.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum