Hoppa yfir valmynd
9. apríl 1997 Utanríkisráðuneytið

Tillaga til ályktunar um stöðu mannréttinda í Kína

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 28

Íslensk stjórnvöld hafa gerst meðflutningsaðili að tillögu til ályktunar um stöðu mannréttinda í Kína, sem fyrirhugað er að leggja fram á 53. þingi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í vikunni. Danmörk er aðalflutningsaðili tillögunnar, en öll Norðurlönd ásamt fjölmörgum öðrum ríkjum eru meðflytjendur.

Í tillögunni er meðal annars vísað til skuldbindinga aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsinguna, ennfremur til þess, að Kína er aðili að samningi um afnám allrar kynþáttamismununar, samningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samningi gegn pyntingum og samningi um réttindi barnsins.

Kínversku ríkisstjórninni er þakkað fyrir upplýsingar um mannréttindamál, ýmsar réttarbætur og áhuga á að gerast aðili að alþjóðasamningnum um borgaraleg og pólitísk réttindi og alþjóðasamningnum um efnahagsleg, félagsleg- og menningarleg réttindi.

Látnar eru í ljós áhyggjur vegna fregna af mannréttindabrotum yfirvalda í Kína og mikilla takmarkana á fundafrelsi, félagafrelsi, tjáningarfrelsi, trúfrelsi og réttaröryggi. Ennfremur vegna vaxandi takmarkana á menningarlegum réttindum, trúfrelsi og öðrum réttindum Tíbetbúa, þar með talið vegna máls hins 11. Panchen Lama, Gedhun Choekyi Nyima.

Ennfremur eru látnar í ljós áhyggjur vegna ofsókna á hendur og harðra dóma yfir þeim, sem á friðsamlegan hátt hafa viljað notfæra sér funda-, félaga- og trúfrelsi.

Ríkisstjórn Kína er hvött til þess, að tryggja mannréttindi í samræmi við skuldbindingar mannréttindasaminga, sem ríkið er aðili að, og að gerast aðili að alþjóðasamningnum um borgaraleg og pólitísk réttindi og alþjóðasamningnum um efnahagsleg, félagsleg- og menningarleg réttindi. Ennfremur að gera ráðstafanir til að bæta réttaröryggi, leysa pólitíska fanga úr haldi, virða réttindi Tíbetbúa og annarra og eiga gott samstarf við aðrar þjóðir og Sameinuðu þjóðirnar um mannréttindamál.



Á 53. þingi mannréttindaráðsins hefur Ísland gerst meðflutningsaðili að ályktunum um ástand mannréttinda í Búrma, Írak, Íran, Kúbu, Nígeríu, Súdan, Austur-Tímor og Zaíre, og auk þess meðal annars að ályktunum um styrkingu mannréttindaskrifstofu S.þ., um réttindi barnsins, friðarferlið í Mið-Austurlöndum, landnám á hernumdu svæðunum fyrir botni Miðjarðarhafs, um afnám hvers kyns fordóma gagnvart trúarbrögðum, um afnám alls ofbeldis gegn konum, um aftökur og dauðarefsingu, um vettvang fyrir frumbyggja innan S.þ. og réttindi minnihlutahópa.

Norðurlöndin hafa staðið að nokkrum sameiginlegum ræðum á þinginu: Um réttindi minnihlutahópa, fjöldafólksflutninga og fólk á vergangi, málefni frumbyggja og svokölluð lágmarks mannúðarmörk (Minimum Humanitarian Standards). Auk þess hefur Ísland gerst meðflutningsaðili að ræðu Evrópusambandsins um varðhaldsmál, en í henni var vikið sérstaklega að ástandi slíkra mála í Tyrklandi, m.a. vegna þess, að tyrknesk stjórnvöld hafa ekki ljáð máls á samvinnu við sérstakan fulltrúa mannréttindaráðsins, sem fjallar um pyntingar.

Fulltrúar 53 ríkja eiga nú sæti mannréttindaráði S.þ., en ríkin eru kosin til þriggja ára á ársfundi efnahags- og félagsmálaráðs S.þ. Ráðið kemur saman einu sinni á ári. Danmörk á nú aðild að ráðinu fyrir hönd Norðurlandanna. Íslendingar hafa ekki átt sæti í ráðinu, en fulltrúar Íslands eiga þar sæti með málfrelsi og rétt, til að gerast meðflytjendur ályktunartillagna.

53. þing mannréttindaráðsins sendur frá 10. mars – 18. apríl 1997.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 10. apríl 1997.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum