Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 072, 30. ágúst 1999.Yfirlýsing fundar utanríkisráðherra Norðurlanda á Egilsstöðum.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 072



Haustfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna, sem haldinn var á Hótel Héraði á Egilsstöðum, lauk í gær sunnudag. Meðal umræðuefna á fundinum voru norrænar áherslur og samstarf innan alþjóða- og svæðisbundinna stofnana, en eins og kunnugt er fer Ísland nú með formennsku í Evrópuráðinu, Noregur í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Finnland í Evrópusambandinu. Jafnframt ræddu ráðherrarnir um svæðisbundna samvinnu á Norðurslóðum og stjórnmálaþróunina í Rússlandi. Einnig var rætt um uppbyggingarstarfið í Kosovo, en ofangreindar stofnanir, ásamt Sameinuðu þjóðunum og öðrum stofnunum, hafa nú sameinað krafta sína til að vinna að uppbyggingarstarfinu þar innan ramma svokallaðs "Stöðugleika-sáttmála" (Stability Pact) fyrir Vestur-Balkanskaga.

Í lok fundarins undirrituðu ráðherrarnir yfirlýsingu þar sem hvatt er til þess að þátttaka barna og ungmenna undir 18 ára aldri í hermennsku verði bönnuð. Yfirlýsingin fylgir hjálagt.

Fyrr í morgun, mánudag, funduðu norrænu utanríkisráðherrarnir með starfsbræðrum sínum frá Eystrasaltsríkjunum. Til viðbótar við þau efni sem talin eru upp hér að ofan var m.a. rætt um stöðu Eystrasaltsríkjanna hvað varðar stækkun Evrópusambandsins og NATO.

Nú um hádegið lauk fundi norrænu ráðherranna með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna og sérstökum heiðursgesti, sem var að þessu sinni Lloyd Axworthy, utanríkisráðherra Kanada. Meðal umræðuefna á þeim fundi var "öryggi einstaklingsins" (human security) innan alþjóðakerfisins og flutti utanríkisráðherra Kanada erindi um það efni. Í framhaldinu ræddu ráðherrarnir níu hvernig Kanada og Norðurlöndin, ásamt Eystrasaltsríkjunum, gætu eflt samstarfið á þessu sviði í framtíðinni.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 30. ágúst 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum