Hoppa yfir valmynd
18. október 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 089, 18. október 1999.Opnun sendiráða Norðurlanda í Berlín

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 089


Nýtt sendiráð Íslands í Berlín verður formlega opnað hinn 20. október næstkomandi, ásamt sendiráðum Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar.

Norrænu sendiráðin fimm verða opnuð á sama tíma með hátíðlegri athöfn að viðstöddum þjóðhöfðingjum Norðurlandanna og utanríkisráðherrum landanna. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flytur ávarp fyrir hönd Norðurlandanna við opnunarathöfnina vegna formennsku Íslands í Norðurlandasamstarfinu. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, er í forsvari fyrir utanríkisráðherrum Norðurlandanna vegna formennskunnar á fundi þeirra með Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands.

Bygging sendiráðsins og undirbúningur að flutningi sendiráðs Íslands frá Bonn til Berlínar hefur staðið í nokkur ár. Norðurlöndin hafa staðið sameiginlega að því viðamikla verkefni, að láta reisa á sömu lóð við Rauchstrasse við Tiergarten fimm hús til að hýsa sendiráðin, og auk þess byggingu til sameiginlegra nota þar sem meðal annars er hægt að halda sýningar og tónleika. Efnt var til samkeppni á meðal arkitekta um skipulagningu sendiráðasvæðisins og samkeppni á meðal íslenskra arkitekta um íslensku sendiráðsbygginguna. Pálmar Kristmundsson vann samkeppnina og er arkitekt íslensku sendiráðsbyggingarinnar.

Heimsókn forseta Íslands og utanríkisráðherra hefur gefið tilefni til að efna til ýmissa funda og sérstakra heimsókna. Forseti Íslands mun hinn 20. október heimsækja þýska þinghúsið og norrænudeild Humboldtháskólans í Berlín. Daginn eftir fer hann í heimsókn til Potsdam, höfuðborgar Brandenborgar, þar sem hann situr hádegisverðarboð Manfreds Stolpe, forsætisráðherra Brandenborgar.

Efnt verður til fundar með helstu viðskiptavinum íslenskra fyrirtækja í Þýskalandi og öðrum þýskum aðilum. Forseti og utanríkisráðherra flytja þar stutt ávörp, ásamt sendiherra Íslands í Berlín, Ingimundi Sigfússyni. Aðalræðumaður fundarins verður Bjarni Ármannsson, framkvæmdastjóri Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, og mun hann fjalla um stöðu og sérstöðu íslensks viðskiptalífs.

Utanríkisráðherra situr hinn 20. október fund utanríkisráðherra Norðurlanda með forsætisnefnd Norðurlandaráðs í Konrad Adenauer Stiftung.

Sama dag verður haldinn fundur Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, sem formanns ráðherranefndar Evrópuráðsins og Knut Vollebæk, utanríkisráðherra Noregs, sem formanns ráðherranefndar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Hinn 21. október situr utanríkisráðherra ráðstefnu Norðurlandaráðs um samvinnu Norðurlandanna og Þýskalands í Evrópu nútímans undir yfirskriftinni "Deutschland und die nordischen Staaten – gemeinsame Wege ins neue Europa" og flytur þar lokaávarp.




Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 18. október 1999



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum