Hoppa yfir valmynd
19. maí 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 044, 19. maí 1999: Áhersluatriði Íslands vegna formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 044


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins kynnti í dag áhersluatriði Íslands vegna formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins á fundi með sendiherrum aðildarríkja þess í Strassborg, Frakklandi. Formennska Íslands hófst 7. maí sl. og varir í sex mánuði.

Í upphafi ræðu sinnar fjallaði utanríkisráðherra um hlutverk Evrópuráðsins vegna hins alvarlega ástands í Kosovo. Evrópuráðið hefði, að hans áliti, mikilvægu hlutverki að gegna við uppbyggingu mannréttinda og lýðræðislegra stjórnarhátta í kjölfar átakanna á Balkanskaga vegna einstakrar reynslu þess af sambærilegu uppbyggingarstarfi í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu á síðasta áratug. Hann lýsti jafnframt yfir stuðningi Íslands við stöðugleikaáætlun Evrópuráðsins fyrir uppbyggingarstarf þess í Suðaustur-Evrópu.

Utanríkisráðherra áréttaði stuðning sinn við stækkun Evrópuráðsins og mikilvægi þess að umsóknarríkin virtu grundvallarreglur Evrópuráðsins um mannréttindi, lýðræði og reglur réttarríkisins. Lýsti hann sig reiðubúinn til að heimsækja Bosníu-Hersegóvínu ásamt framkvæmdastjóra Evrópuráðsins á formennskutímabili Íslands en Bosnía-Hersegóvína hefur sótt um aðild að ráðinu. Jafnframt lýsti hann stuðningi sínum við umsóknir Armeníu, Aserbaídsjan og Mónakó um aðild að Evrópuráðinu, að uppfylltum skilyrðum ráðsins um aðild.

Í máli sínu lagði utanríkisráðherra ríka áherslu á eftirlitshlutverk ráðsins á sviði mannréttinda og mikilvægi þess að aðildarríkin virtu þær skuldbindingar, sem þau hefðu undirgengist með aðild að því. Mikilvægt væri að ríki virtu ákvarðanir þeirra stofnana, sem komið hefði verið á fót í þeim tilgangi að tryggja að aðildarríkin stæðu við skuldbindingar sínar. Í þessu sambandi nefndi hann sérstaklega dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Jafnframt áréttaði hann að treysta bæri fjárhagslegan grundvöll dómstólsins og myndi Ísland á formennskutímabilinu leita leiða í þessum efnum í samráði við önnur aðildarríki ráðsins. Miklu skipti að fjárhagslegur stöðugleiki væri fyrir hendi á þeim sviðum sem aðildarríkin hefðu veitt forgang og væru hluti af langtímaáætlun Evrópuráðsins.

Utanríkisráðherra lýsti ánægju sinni með stofnun embættis umboðsmanns mannréttinda við Evrópuráðið en honum bæri að vinna að kynningu mannréttinda og fylgjast almennt með framvindu þeirra í aðildarríkjunum. Það yrði mikilvægt verkefni Íslands að tryggja framgang þessa nýja embættis og veita því stuðning. Ísland legði áherslu á að mannréttindafulltrúinn yrði kosinn á þessu ári.

Í máli utanríkisráðherra kom fram að Ísland teldi mikilvægt að efla samvinnu og samráð Evrópuráðsins við aðrar alþjóðastofnanir, sérstaklega Evrópusambandið (ESB) og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Ákjósanlegt tækifæri gæfist til slíks á þessu ári en Noregur gegndi nú formennsku í ÖSE en Finnland myndi leiða starf ESB á síðari hluta ársins. Mikilvægt væri að efla og samhæfa samstarf þessara stofnana, auka skilvirkni þeirra og koma í veg fyrir tvíverknað. Tryggja yrði að sérþekking Evrópuráðsins nýtist með sem bestum hætti í slíkri samvinnu. Eitt fyrsta verkefnið þessu tengt væri sameiginleg ráðstefna Evrópuráðsins og ÖSE að frumkvæði formennskuríkjanna um menningu og lausn deilumála, sem hæfist í Bergen á morgun með þátttöku utanríkisráðherra beggja formennskuríkjanna.

Ísland stefndi að því að sérstakir samráðsfundir yrðu haldnir með æðstu yfirmönnum þessara stofnana auk formanna þeirra á formennskutímabili sínu. Slíkir fundir gegndu mikilvægu hlutverki við framþróun og eflingu samstarfs stofnananna.

Einnig lagði utanríkisráðherra áherslu á aukna samvinnu ráðherranefndarinnar við þingmannasamkomu Evrópuráðsins og þing sveitar- og héraðsstjórna (CLRAE). Gert er ráð fyrir að utanríkisráðherra ávarpi báðar þessar samkomur í júnímánuði nk. sem formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins.

Auk utanríkisráðherra voru Sverrir Haukur Gunnlaugsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Sveinn Björnsson fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu á fundinum.


Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 19. maí 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum