Hoppa yfir valmynd
29. apríl 1997 Utanríkisráðuneytið

55. fundur þróunarmálanefndar Alþjóðabankans

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 36

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag 55. fund þróunarmálanefndar Alþjóðabankans í Washington. Utanríkisráðherra er í forsæti fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í nefndinni, en í henni eiga sæti 24 ráðherrar fyrir hönd hátt á annað hundrað ríkja. Nefndin mótar meginstefnu bankans í aðstoð við þróunarlöndin.

Til umræðu á fundinum var sérstakt átak til aðstoðar skuldugustu þróunarríkjunum (Heavily Indebted Poor Countries Initiative), málefni Alþjóðlegu fjárfestingarábyrgðarstofnunarinnar (MIGA), fjárfestingar í samgöngu- og fjarskiptakerfi þróunarríkjanna af hálfu einkaaðila, tekjur Alþjóðabankans og stefnumótun í starfi hans (Strategic Compact).

Af hálfu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna lagði utanríkisráðherra fram yfirlýsingu með afstöðu þeirra til helstu málefna á dagskrá.

Í umræðunum lagði utanríkisráðherra mikla áherslu á, að stutt yrði við bakið á hinu sérstaka átaki til aðstoðar skuldugustu þróunarríkjunum (HIPC). Hann hvatti önnur ríki, ekki síst helstu iðnríki heims (G-7), til að leggja því lið. Utanríkisráðherra minntist einnig á nauðsyn þess, að Alþjóðabankinn hefði fjárhagslegt svigrúm til að leggja fé til annarra forgangsverkefna en HIPC-átaksins. Hann fagnaði ákvörðun um stuðning við Úganda og hvatti til þess, að ákvörðun um aðstoð við Bólivíu, Búrkina Fasó og Fílabeinsströndina yrði flýtt.

Í málflutningi ráðherra kom ennfremur fram, að nauðsyn bæri til að renna stoðum undir fjárhagsgrundvöll MIGA. Í því skyni væri mikilvægt að styrkja stefnumótun stofnunarinnar.

Ennfremur væri nauðsynlegt að tryggja tekjur Alþjóðabankans og þar með fjárhagslegt öryggi hans, til að hann mætti í framtíðinni gegna hlutverki sínu í aðstoð við þróunarríkin.

Hann lýsti stuðningi við þá viðleitni bankastjórnarinnar að bæta skipulag á starfsemi bankans með það fyrir augum að auka árangurinn í þeim löndum, sem þiggja aðstoð, auka þátttöku þeirra í starfi bankans og virkni í framkvæmdum.
Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess, að aðstoð við þróunarlöndin héldist í hendur við frammistöðu viðkomandi landa í efnahagsuppbyggingu, en taldi einnig afar mikilvægt að aðstoða við framþróun á sem flestum sviðum samfélagsins, s.s. heilsugæslu, menntun, félagslegri þjónustu, auk þess sem að stuðlað yrði að jafnrétti kynjanna.

Meðfylgjandi er yfirlýsing utanríkisráðherra.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 29. apríl 1997.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum