Hoppa yfir valmynd
2. september 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 074, 2. september 1999.Opnun sendiráðs Íslands í Berlín

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 074



Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag samráðsfund með ræðismönnum Íslands í Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Var fundurinn haldinn í húsakynnum nýrrar sendiráðsbyggingar Íslands í Berlín.
Í ræðu sinni minntist utanríkisráðherra heimsóknar sinnar til Berlínar fyrir fall Berlínarmúrsins og þeirra ótrúlegu breytinga er átt hafa sér stað í Evrópu á tæpum áratug. Hann áréttaði einnig mikilvægi samstarfs Íslands við Þýskaland, Austurríki og Sviss á sviði efnahags- stjórnmála og menningarmála. Utanríkisráðherra vakti athygli á mikilvægi ræðismanna Íslands fyrir fámenna utanríkisþjónustu og þakkaði ræðismönnunum fyrir ómetanlegt starf í þágu Íslands.
Utanríkisráðherra greindi ræðismönnunum jafnframt frá áherslum íslenskra stjórnvalda í Evrópumálum og öryggismálum og sérstöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Ræðismenn voru einnig upplýstir um yfirstandandi formennsku Íslands í Evrópuráðinu og í Norrænu ráðherranefndinni.
Á fundinum hélt Sverrir Haukur Gunnlaugsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, erindi um viðskiptatengsl Íslands með áherslu á starfsemi viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins og starf viðskiptafulltrúa í sendiráðum Íslands. Hann greindi einnig frá fyrirhugaðri þátttöku af Íslands hálfu í heimssýningunni Expo 2000 sem haldin verður í Hannover á næsta ári.
Þórunn Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Reykjavík-Menningarborg Evrópu árið 2000, kynnti ræðismönnum dagskrá menningarborgarársins. Jafnframt greindi Þorvarður Guðlaugsson, svæðisstjóri Flugleiða í Þýskalandi og Mið-Evrópu frá starfsemi fyrirtækisins og áformum um reglubundið áætlunarflug Flugleiða á milli Íslands og Berlínar frá og með júnímánuði á næsta ári.
Ingimundur Sigfússon, sendiherra Íslands í Berlín, sýndi Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra, húsakynni nýs sendiráðs Íslands í borginni en formleg opnunarathöfn sameiginlegs sendiráðssvæðis Norðurlanda og sendiráðanna fimm fer fram 20.október næstkomandi að viðstöddum þjóðhöfðingjum Norðurlanda.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 2. september 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum