Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 054, 30. ágúst 2000. Norrænn utanríkisráðherrafundur

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 54


Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda var haldinn 29. ágúst í Middelfart í Danmörku. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir hönd Íslands. Daginn eftir sat hann fund með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháen. Sérstakur fundur var síðan haldinn með Javier Solana, háttsettum fulltrúa Evrópusambandsins í öruyggismálum.
Á fundinum voru Evrópumálefni einkum rædd, stækkun ESB, væntanleg formennska Svía í ESB, skipan öryggismála, svæðasamstarf, samstarf við Rússland, norðlæga víddin o.fl. Halldór Ásgrímsson flutti framsögu um stækkun NATO á norræna ráðherrafundinum og einnig á fundinum með ráðherrum Eystrasaltslandanna. Þar kom fram að Eystrasaltslöndin hafa náð miklum árangri í að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem hugsanlegra aðila að NATO í framtíðinni.
Solana sagði um skipan öryggismála í Evrópu að niðurstöður leiðtogafundar ESB í Feira hefðu leyst ýmis vandamál varðandi m.a. ferli ákvarðanatöku og samstarf við aðrar alþjóðastofnanir, einnig gagnvart þeim NATO löndum sem ekki eru aðilar að ESB. Starfið varðandi nýja skipan öryggismála álfunnar væri að hefjast.
Ákveðið var að í framtíðinni myndu fundir ráðherra Norðurlanda og Eystrasaltslandanna þriggja verða kallaðir fundir hinna "átta" í stað "fimm plús þrír" eins og hingað til hefur verið talað um.
Hjálögð er sameiginleg yfirlýsing norrænu utanríkisráðherranna þar sem þeir fordæma mannréttindabrot herforingjastjórnar Burma gegn Aung San Suu Kyi og lýsa yfir áhyggjum af öryggi hennar og heilsufari.




Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 30. ágúst 2000.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum