Hoppa yfir valmynd
2. desember 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr.118, 2.desember 1999Fréttatilkynning frá fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Seattle.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 118


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, flutti í gærkvöldi ræðu á ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), sem nú stendur yfir í Seattle í Bandaríkjunum. Megin verkefni ráðherrastefnunnar er að hleypa af stokkunum nýrri lotu samningaviðræðna um alþjóðaviðskipti.
Í ræðu sinni fjallaði utanríkisráðherra einkum um skaðsemi ríkisstyrkja í sjávarútvegi fyrir sjálfbæra þróun og skynsamlega nýtingu fiskistofna. Af þessum sökum hefðu íslensk stjórnvöld lagt fram tillögur á vettvangi WTO sem fælu í sér að settar yrðu reglur sem takmörkuðu beitingu ríkisstyrkja er stuðla að rányrkju og ofveiði, hamli viðskiptum og samkeppni og feli í sér óæskileg umhverfisáhrif. Þessar tillögur eru í drögum að yfirlýsingu ráðherrastefnunnar.
Helstu viðfangsefni nýju samningalotunnar eru að fjalla um þjónustuviðskipti og viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þá hafa fjölmörg þróunarríki krafist þess að fjallað verði um erfiðleika þeirra við að standa við ýmsar skuldbindingar sem felast í samningum WTO. Utanríkisráðherra gerði þetta vandamál að umtalsefni í ræðu sinni og lagði áherslu á að það þjónaði litlum tilgangi að gera nýja samninga á vettvangi WTO meðan gildandi samningar væru ekki uppfylltir með viðunandi hætti. Ráðherrann sagði það jafnframt skoðun sína að samhliða bættri framkvæmd samninganna yrðu aðildarríki WTO að halda áfram á braut sinni til aukins frjálsræðis í heimsviðskiptum með því að afnema viðskiptahindranir og ætti það jafnt við um landbúnað, þjónustuviðskipti og iðnvarning. Hann hvatti því aðildarríkin til að sýna sveigjanleika, skilning, vilja og síðast en ekki síst framsýni í komandi samningaviðræðum um alþjóðaviðskipti.
Ræða ráðherra fylgir hjálögð.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 2. desember 1999


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum