Hoppa yfir valmynd
19. desember 1997 Utanríkisráðuneytið

Ísland og Schengensamningurinn

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________

Nr. 104

Með bréfi dags. 17. júlí 1997 fól utanríkisráðherra lagaprófessorunum Davíð Þór Björgvinssyni, Stefáni Má Stefánssyni og Viðari Má Matthíassyni að taka saman álitsgerð um það hvort væntanlegt samkomulag við ESB um Schengen-samninginn kunni að brjóta í bága við íslensku stjórnarskrána. Prófessorarnir hafa nú skilað álitsgerðinni og verða helstu atriði hennar reifuð hér að neðan.

1. Forsendur
Þar sem niðurstöður Schengen-samningaviðræðna liggja ekki fyrir byggir álitsgerðin á eftirfarandi forsendum:

* Að samstarfssamningurinn við Schengen-ríkin verði lagður til grundvallar.
* Að væntanlegur samningur við ESB verði milliríkjasamningur.
* Að önnur atriði í hinni svokölluðu "dönsku lausn" verði höfð til hliðsjónar.
* Að reynist nauðsynlegt að dómstóll fari með dómsvald varðandi þau málefni sem falla myndu undir væntanlegan samning, yrði það EFTA-dómstóllinn eða sambærilegur dómstóll.

Auk framangreindra forsenda miðast álitið við að afskipti alþjóðastofnana af íslenskum ríkisborgurum séu ekki veruleg og þá staðreynd að framsal á ríkisvaldi sem felst í samstarfssamningnum um Schengen sé takmarkað og taki til afmarkaðra málaflokka.

2. Niðurstöður
Framsal löggjafarvalds
Ekki er talið að um ólögmætt framsal löggjafarvalds sé að ræða. Það sem einkum ræður úrslitum er að samkvæmt samstarfssamningnum hefur Ísland fullan rétt til þess að hafna tiltekinni Schengen-gerð og það kallar einungis á þjóðréttarleg viðbrögð ef Ísland samþykkir ekki tiltekna Schengen-gerð eða Alþingi hafnar að leiða hana í lög.

Framsal framkvæmdavalds og dómsvalds
Hér er gert ráð fyrir eftirfarandi þremur möguleikum:
a) Óbreyttur samstarfssamningur
Framsal á framkvæmdavaldi og dómsvaldi er þess eðlis að það brýtur ekki í bága við íslensku stjórnarskrána.


b) Schengen-sviðið verður lagt til ESB og Ísland nýtur ekki sérstakra undanþága varðandi valdsvið stofnana ESB
Reikna verður með því að framkvæmdastjórn ESB og dómstóll EB fari með talsvert vald hvort á sínu sviði sem íslenskir einstaklingar og lögaðilar geta orðið bundnir af. Að gefnum þeim forsendum að Ísland eigi ekki aðild að framangreindum stofnunum og að valdið nái einkum til málefna sem falla undir fyrstu stoð ESB er það álit þremenninganna að slíkur samningur stæðist ekki ákvæði íslenskrar stjórnarskrár.

c) Schengen-sviðið verður lagt til ESB og Ísland nýtur tiltekinna undanþága
Gert er ráð fyrir því að Ísland eigi aðild að þeim alþjóðastofnunum sem hér um ræðir. Enn fremur að dómsvald EFTA- eða sambærilegs dómstóls yrði ekki jafn víðtækt og úrlausnir ekki bindandi í sama mæli og ef um dómstól EB væri að ræða. Sé málum skipað með þessum hætti myndi það standast ákvæði íslenskrar stjórnarskrár.

Framsal á valdi til þess að gera þjóðréttarsamninga
Samstarfssamningurinn gerir ekki ráð fyrir því að valdið til að gera þjóðréttarsamninga sé framselt til annarra ríkja eða alþjóðastofnanna, þar sem Ísland ákveður sjálft hvort það samþykkir samninga sem kunna að verða gerðir milli allra ríkjanna sem eiga aðild að Schengen-samningnum og þriðju ríkja.

Reykjavík, 19. desember 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum