Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 115, 26. nóvember 1999 Ferð ráðuneytisstjóra til Kína og Japan

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 115


Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Sverrir Haukur Gunnlaugsson, var í Peking dagana 23.-25. nóvember 1999 í boði kínverskra stjórnvalda til viðræðna um samskipti landanna. Slíkar viðræður hafa átt sér stað reglulega undanfarin ár.

Ráðuneytisstjóri átti fund með Wang Yingfan, varautanríkisráðherra og Zhou Keren, vararáðherra utanríkisviðskipta. Jafnframt gekk ráðuneytisstjóri á fund Qian Qichen, varaforsætisráðherra en hann kom sem utanríkisráðherra í opinbera heimsókn til Íslands árið 1995.

Í viðræðunum fagnaði ráðuneytisstjóri þeim árangri sem nýlega náðist í viðræðum Kína um væntanlega aðild landsins að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Hann lagði ríka áherslu á að í tengslum við aðild lækkuðu kínversk stjórnvöld tolla á íslenskar sjávarafurðir en þeir eru nú 15-30% og hamla mjög útflutningi Íslands til Kína. Auk samstarfs í sjávarútvegi sýndu kínversku ráðherrarnir áhuga á aukinni samvinnu á sviði jarðhitanýtingar í Kína. Einnig var rætt um menningartengsl og pólitísk samskipti landanna og leiðir til að efla þau enn frekar. Rætt var um vaxandi þátttöku Íslands í starfi alþjóðlegra stofnana þ.á.m. í stjórn Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) svo og framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna árin 2009-2010. Þá var m.a. rætt um samrunaþróunina í Evrópu, þróunina í öryggismálum Evrópu og ástandið í Austur Tímor.

Ólafur Egilsson, sendiherra Íslands í Peking, Stefán H. Jóhannesson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Ragnar Baldursson, sendiráðunautur, sátu einnig fundina.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 26. nóvember 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum