Hoppa yfir valmynd
29. maí 1997 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 51

Utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, sat í dag utanríkisráðherrafund Atlantshafs-bandalagsins í Sintra í Portúgal. Meginefni fundarins voru innri og ytri aðlögun bandalagsins, og jafnframt að undirbúa leiðtogafund þess sem haldinn verður í Madrid 8. og 9. júlí n.k.
Ákveðið var að leggja til við samstarfsríki bandalagsins að stofnaður verði nýr samstarfsvettvangur, Evró-Atlantshafssamstarfsráðið (Euro-Atlantic Partnership Council, EAPC), sem komi í stað Norður-Atlantshafssamvinnuráðsins (NACC). Undirbúningur að stofnun EAPC hefur staðið í nokkurn tíma í fullu samráði við samstarfsríkin. Ennfremur var ákveðið að efla til muna Friðarsamstarf bandalagsins (Partnership for Peace). Með Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu og efldu friðar-samstarfi verður samstarf og samráð bandalagsins við samstarfsríkin enn öflugra.
Ráðherrarnir lýstu sérstakri ánægju með nýgerðan sáttmála NATO og Rússlands sem undirritaður var í París 27. maí síðastliðinn af leiðtogum Atlantshafsbandalagsríkjanna og Boris Jeltsín, forseta Rússlands. Var lögð áhersla á að nýta til fulls það tækifæri sem sáttmálinn gefur til náins samstarfs og samráðs bandalagsins og Rússlands.
Ráðherrarnir ræddu einnig fyrirhugaða stækkun bandalagsins og voru sammála um að hún yrði til þess að auka öryggi í Evrópu. Jafnframt lögðu ráðherrarnir áherslu á að bandalagið yrði áfram opið nýjum aðildarríkjum í kjölfar fyrstu umferðar stækkunar.
Í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á öryggisumhverfi Evrópu hefur bandalagið ennfremur ákveðið að endurskoða varnarstefnu bandalagsins, en núverandi varnarstefna var samþykkt á leiðtogafundi bandalagsins í Róm árið 1991.
Ástandið í Bosníu var einnig ítarlega rætt og voru leiðtogar Bosníu hvattir til þess að virða að fullu Dayton-friðarsamkomulagið. Í yfirlýsingu fundarins eru talin upp mörg þau atriði þar sem úrbóta er þörf til að friður megi haldast.
Þá undirrituðu framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins og utanríkisráðherra Úkraínu samstarfssáttmála NATO og Úkraínu, sem verður staðfestur á leiðtogafundi bandalagsins í Madrid í júlí.
Hjálagt fylgir yfirlýsing ráðherrafundarins.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 29. maí 1997.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum