Hoppa yfir valmynd
24. mars 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 020, 24. mars 1998: Viðræður um fríverslunarsamning milli Kanada og EFTA.

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 20.
Dagana 23. - 24. mars var stödd hér á landi sendinefnd frá Kanada til viðræðna við íslensk stjórnvöld um gerð fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Kanada og um tvíhliða samstarf Íslands og Kanada á sviði viðskipta- og efnahagsmála.
Kanadíska sendinefndin átti fundi með utanríkisráðherra, alþingismönnum, fulltrúum ráðuneyta og hitti fulltrúa nokkurra íslenskra fyrirtækja sem stunda viðskipti við Kanada. Jafnframt var undirritað samkomulag um samvinnu í viðskiptum og efnahagsmálum milli Íslands og Kanada. Helgi Ágústsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Marie-Lucie Morin, sendiherra Kanada á Íslandi undirrituðu samkomulagið.
Samkomulag af því tagi sem var undirritað milli Íslands og Kanada hafa kanadísk stjórnvöld þegar gert við Noreg og Sviss og er litið svo á að samkomulag þetta sé undanfari fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna og Kanada.
Markmiðið með samkomulaginu er;
- að efla samskipti landanna á sviði viðskipta- og efnahagsmála með sérstaka áherslu á vöru-og þjónustuviðskipti, fjárfestingar og sjávarútvegsmál.
- að styrkja samstarf landanna í því augnamiði að auka frjálsræði og draga úr hömlum í viðskiptum.
- að auka samvinnu einkafyrirtækja á Íslandi og í Kanada.

Aðilar samkomulagsins munu setja á fót sérstaka samráðsnefnd til að auðvelda framkvæmd samkomulagsins og til að uppfylla markmið þess. Samráðsnefndin er skipuð fulltrúum stjórnvalda, en fulltrúum atvinnulífsins verður boðin þátttaka í störfum nefndarinnar.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 24. mars 1998

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum