Hoppa yfir valmynd
26. september 1997 Utanríkisráðuneytið

Ræða utanríkisráðherra á 52. allsherjarþingi S.þ.

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 82

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra flutti í dag ræðu í almennri umræðu við upphaf 52. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York.

Hann fjallaði um endurbótatillögur Kofi Annan framkvæmdastjóra samtakanna og lýsti eindregnum stuðningi sínum við tillögurnar. Hvatti hann aðildarríkin til að samþykkja þær í heild sinni sem fyrst. Einnig lagði hann áherslu á að aðildarríki greiddu framlög sín til samtakanna að fullu og tímanlega. Hann fagnaði málamiðlunartillögu fráfarandi forseta allsherjarþingsins um breytingar á öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Utanríkisráðherra lýsti áhyggjum vegna ótryggs ástands í Mið-Austurlöndum og hvatti deiluaðila til að forðast að skapa hindranir fyrir friði. Hann gerði einnig að umtalsefni erfitt ástand í Afríku, sunnan Sahara, einkanlega á vatnasvæðinu mikla.

Í ræðu sinni fjallaði utanríkisráðherra um ýmis mikilvæg viðfangsefni Sameinuðu þjóðanna. Hann lagði áherslu á mikilvægi afvopnunarmála í starfi samtakanna og hvatti til þess að komið yrði á allsherjarbanni við jarðsprengjum sem beint er gegn fólki.

Ennfremur fagnaði hann þeirri tillögu framkvæmdastjóra að gera mannréttindi að órjúfanlegum þætti í öllu starfi Sameinuðu þjóðanna. Hann minnti á að á næsta ári verða fimmtíu ár liðin frá samþykkt mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Utanríkisráðherra lagði sérstaklega áherslu á mannréttindi kvenna og mikilvægi þess að bæta hlut kvenna, ekki síst með aukinni menntun og atvinnumöguleikum.

Hann taldi afar nauðsynlegt að styrkja baráttuna gegn fíkniefnasölu og ýmsum fylgifiskum hennar; glæpum, vændi og eyðni. Hann fagnaði fyrirhuguðu aukaallsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um fíkniefnavarnir, sem halda á í New York á næsta ári.

Utanríkisráðherra fjallaði einnig um mikilvægi þess að vernda lífríki hafsins gegn mengun, einkanlega þrávirkum lífrænum efnum. Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað næsta ár hafinu. Taldi utanríkisráðherra mikilvægt að nota tækifærið og vekja þjóðir heims til vitundar um nauðsyn þess að vernda lífríki hafsins. Hann hvatti til þess að hið alþjóðlega samfélag léti sig í auknum mæli varða sjálfbæra nýtingu lífrænna auðlinda hafsins, en meginábyrgðin á stjórnun slíkrar auðlindanýtingar hlyti ávallt að vera hjá þeim ríkjum, sem byggðu afkomu sína á henni. Hann varaði við að látið yrði undan þrýstingi frá óábyrgum verndunarsamtökum, sem viðurkenndu ekki tengslin á milli verndunar umhverfisins og nýtingar auðlinda. Hann hvatti aðildarríki til að staðfesta úthafsveiðisamninginn.

Utanríkisráðherra minntist á aðild Íslands að Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna og umræðu um að skapa hagstætt umhverfi í þágu þróunar á fundi ráðsins í sumar. Hann lýsti áhyggjum vegna þess að sum þróunarríkjanna eiga á hættu að útilokast frá hinum alþjóðlega markaði. Í þróunarsamvinnu taldi hann mikilvægt að efla einkaframtakið, en styrkja jafnframt opinberar stofnanir og lagalegan grundvöll í viðkomandi ríkjum, góða stjórnun og baráttu gegn spillingu. Á sama hátt yrði að efla mannlega þáttinn. Betri menntun, heilsugæsla og félagsleg þjónusta væri órjúfanlegur þáttur í þróunaráætlunum. Fjárfestingar einkaaðila og opinber þróunaraðstoð yrði að haldast í hendur til að tryggja hagvöxt og eyða fátækt.

Utanríkisráðherra minntist á formennsku sína fyrir Norðurlönd og Eystrasaltslöndin í þróunarmálanefnd Alþjóðabankans og ítrekaði það, sem komið hefði fram í máli hans á fundi nefndarinnar í Hong Kong fyrr í vikunni, að áætlun bankans um að létta skuldabyrði skuldugustu þróunarríkjanna yrði að leiða til varanlegrar lausnar á skuldavandamálum þeirra.

Í New York átti utanríkisráðherra einnig fundi með samstarfsmönnum sínum frá ýmsum löndum, þar á meðal Norðurlöndunum, Liechtenstein, Armeníu og Andorra.


Reykjavík, 26. september 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum