Hoppa yfir valmynd
16. desember 1997 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________

Nr. 102

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins komu saman í dag, 16. desember 1997 í Brussel. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Á fundinum bar hæst stækkun bandalagsins og var það söguleg stund þegar undirritaðar voru aðildarbókanir Póllands, Tékklands og Ungverjalands. Við það tækifæri sagði utanríkisráðherra að undirritunin sýndi svo ekki væri um villst að skipting Evrópu heyrði fortíðinni til. Hann lagði áherslu á að ekki væri verið að setja ný landamæri í Evrópu, heldur væri þvert á móti verið að auka frið og öryggi í álfunni. Hann lýsti einörðum stuðningi ríkisstjórnar Íslands við framtíðaraðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands. Á sama tíma lagði hann áherslu á mikilvægi þess að bandalagið stæði áfram opið öðrum ríkjum og á samstarfið við Rússland, Úkraínu og önnur samstarfsríki. Hann sagði að undirritunin markaði upphafið að ákveðnu ferli en ekki endalokin.

Ráðherrarnir sögðu að bandalagið myndi eiga nána samvinnu við Pólland, Tékkland og Ungverjaland á næstu mánuðum til að undirbúa þau undir aðild og ítrekuðu að stefnt væri að því að ljúka fullgildingarferlinu í aðildarríkjum bandalagsins þannig að af fullri aðild gæti orðið á 50 ára afmæli Washington samningsins í apríl 1999.

Varðandi stækkunarmálin almennt lögðu ráðherrarnir áherslu á að bandalagið stæði áfram opið öðrum ríkjum skv. 10.gr Washington samningsins. Stækkunin væri hluti af víðtæku ferli sem næði ekki eingöngu til ákvörðunarinnar um að bjóða ríkjunum þremur aðild heldur einnig til víðtæks samstarfs Atlantshafsbandalagsins við samstarfsríkin í Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu, innan Friðarsamstarfsins og samstarfs þess við Rússland, Úkraínu og Miðjarðarhafsríkin.

Ráðherrarnir ræddu ennfremur málefni Bosníu-Hersegóvínu og lýstu yfir stuðningi við niðurstöður nýafstaðinnar ráðstefnu í Bonn um friðarframkvæmdina í Bosníu. Sú ráðstefna viðurkenndi þörfina á hernaðarlegri viðurvist í landinu eftir júní 1998 þegar núverandi umboð SFOR rennur út. Með þetta í huga samþykktu ráðherrarnir pólitískar og hernaðarlegar leiðbeiningar til hermálayfirvalda Atlantshafsbandalagsins um að setja fram mismunandi valkosti varðandi hernaðarlega viðurvist bandalagsins í Bosníu-Hersegóvínu eftir að umboð SFOR rennur út. Hermálayfirvöldum bandalagsins var gert að leggja þessa valkosti fyrir Norður-Atlantshafsráðið ekki seinna en um miðjan janúar 1998 til að tryggja skjóta úrlausn þessa máls að höfðu samráði við þau ríki utan bandalagsins sem taka þátt í SFOR og með tilliti til öryggisástandsins í Bosníu.

Ráðherrarnir staðfestu að hagsmunir Atlantshafsbandalagsins á því að jafnvægi ríkti á svæðinu næðu út fyrir Bosníu-Hersegóvínu og kváðust þeir deila þeim áhyggjum sem hefðu verið settar fram á ráðstefnunni í Bonn varðandi aukna spennu milli þjóðarbrota í Kosóvó og á öðrum svæðum.

Varðandi innri aðlögun bandalagsins bar hæst á góma að samkomulag hefði náðst um nýtt herstjórnarkerfi. Ráðherrarnir lýstu einnig ánægju yfir þeirri framför sem átt hefði sér stað varðandi þróun evrópsku-stoðarinnar innan bandalagsins.

Ráðherrarnir kváðust ætla að nýta til fulls þau tækifæri til samstarfs sem Evró-Atlantshafssamstarfsráðið og Friðarsamstarfið byðu upp á.

Ráðherrarnir kváðust ætla að leggja kapp á samráð og samstarf við Rússland á grundvelli NATO-Rússland Samstarfsráðsins. Þeir sögðust einnig ætla að halda áfram samstarfi og samráði við Úkraínu og héldu síðar um daginn fyrsta utanríkisráðherrafundinn með Úkraínu á grundvelli samstarfssáttmálans milli Atlantshafsbandalagsins og þess ríkis.

Ráðherrarnir veittu athygli nýhafinni starfsemi Miðjarðarhafssamvinnu- nefndarinnar sem ætlað er að leggja áherslu á pólitískt mikilvægi viðræðna bandalagsins við sex Miðjarðarhafsríki í samræmi við þá afstöðu bandalagsins að öryggi í Evrópu sé nátengt öryggi á Miðjarðarhafinu.

Ráðherrarnir samþykktu framkomið boð Bandaríkjanna um að halda næsta leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Washington vorið 1999 í tilefni af 50 ára afmæli bandalagsins.

Lokayfirlýsing fundarins fylgir hjálagt.



Reykjavík, 16. desember 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum