Hoppa yfir valmynd
24. apríl 1996 Utanríkisráðuneytið

Umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 034



Umhverfisnefnd Sameinuðu þjóðanna kemur saman í höfuðstöðvum samtakanna dagana 18. apríl - 3. maí 1996. Nefndin
hefur það meginhlutverk að fylgja eftir framkvæmdaáætlun umhverfisráðstefnunnar sem haldin var í Rio de Janeiro árið
1992. Þetta er fjórði aðalfundur nefndarinnar frá því ráðstefnan var haldin og meðal helstu umræðuefna á fundinum eru
málefni tengd verndun hafsins, mengunarvörnum, nýtingu lífrænna auðlinda og verndunar andrúmsloftsins.

Haldinn verður sérstakur fundur hátt settra aðila dagana 1. - 3. maí nk. til undirbúnings væntanlegu auka-allsherjarþingi S.
þ. vorið 1997 um sjálfbæra þróun en þá er ætlunin að fara yfir og meta framgang samþykkta Rio-ráðstefnunnar og taka
ákvörðun um frekari aðgerðir. Guðmundur Bjarnason, umhverfisráðherra mun taka þátt í fundinum og ávarpa hann fyrir
Íslands hönd.

Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra, sækir einnig hluta fundarins að þessu sinni, en hann þáði boð formanns
umhverfisnefndarinnar um að taka þátt í pallborðsumræðum 22. apríl um fjármögnun sjálfbærrar þróunar. Í framsöguræðu
sinni fjallaði ráðherrann m.a. um hlutverk hins frjálsa markaðar og ríkisvalds við að tryggja sem hagstæðust skilyrði fyrir
sjálfbæra þróun í heiminum, reynslu Norðurlandanna, viðbrögð við samdrætti í opinberri þróunaraðstoð og nýjar leiðir til
fjármögnunar. Auk Friðriks Sophussonar, fjármálaráðherra, tóku þátt í pallborðsumræðunum fjármálaráðherrar Mósambík
og Filippseyja og fulltrúar Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD.



Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 24. apríl 1996.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum